Reynir Vilhjálmsson, landslagsarkitekt hlýtur Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands 2022
Reynir Vilhjálmsson, landslagsarkitekt hlýtur Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands 2022 og tók á móti verðlaununum við hátíðlega athöfn í Grósku fyrr í kvöld. Það var ráðherra menningar og viðskipta, Lilja D. Alfreðsdóttir sem afhenti Reyni verðlaunin.
Reynir er brautryðjandi í landslagsarkitektúr á Íslandi og spor hönnunar hans og áhrifa liggja víða. Hann er meðal allra fyrstu íslensku landslagsarkitektanna og eftir hann liggja fjölmörg verk, allt frá skipulagi íbúðahverfa og umhverfishönnun innan þeirra, görðum, útivistarsvæðum og leiksvæðum til stærri umhverfisverka eins og snjóflóðavarnargarða. Reynir er næmur á hvernig móta má byggt umhverfi og landslag svo úr verði ein samfelld heild.
Reynir er fæddur í Reykjavík árið 1934. Hann lauk garðyrkjunámi frá Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum í Ölfusi árið 1953 og framhaldsnámi við Det kongelige haveselskabs anlægsgartnerskole 1955. Árið 1961 lauk hann prófi í landslagsarkitektúr frá Det Kongelige Kunstakademis Arkitektskole í Kaupmannahöfn. Reynir starfaði um tíma í Danmörku og við skipulagsstörf á Grænlandi. Þegar Reynir snéri heim til Íslands stofnaði hann fljótlega eigin stofu, Teiknistofu Reynis Vilhjálmssonar, árið 1963 en árið 1989 hóf hann rekstur á stofunni Landslagsarkitektar Reynir Vilhjálmsson og Þráinn Hauksson og var síðar stofnandi teiknistofunnar Landslags árið 1999. Í starfi sínu í Danmörku kynntist Reynir þverfaglegu samstarfi arkitekta, landslagsarkitekta og verkfræðinga og tileinkaði sér það í störfum sínum alla tíð.
Við heimkomuna var Reynir í hópi sérfræðinga sem lögðu grunn að aðalskipulagi Reykjavíkurborgar, sem þá var unnið í fyrsta sinn, og kom einnig að skipulagi Árbæjarhverfis og Bakkahverfisins í Breiðholti. Reynir hefur á ríflega fjörutíu ára ferli verið grundvöllur græna svæða Reykjavíkurborgar og manneskjulegu og skjólgóðu umhverfi þar. Hann hefur mótað nokkur af helstu útivistarsvæðum borgarinnar; Elliðaárdalinn, Laugardalinn og Klambratún.
Reynir hefur alla tíð verið atkvæðamikill í félagsstarfi og árið 1978 stofnaði hann ásamt fleirum Félag íslenskra landslagsarkitekta, FÍLA, og var fyrsti formaður þess. Reynir hefur verið lærifaðir margra landslagsarkitekta og annarra þeirra sem móta manngert umhverfi.
Í verkum sínum hefur Reynir ávallt veitt athygli þeim fjölmörgu atriðum sem tryggja gæði manngerðs umhverfis; m.a. hugað að vindum og veðri, aðgengi barna að leik- og útisvæðum og tengslum einkasvæða við almenningssvæði. Í fyrstu skipulagsverkunum sem Reynir kom að var lagður grunnurinn að þeim grænu svæðum sem enn prýða borgina. Reynir hefur unnið með fjölda arkitekta að þróun garða og umhverfis bygginga og haft þar afgerandi áhrif á gæði þess umhverfis sem borgarlandslagið býður upp á. Þar hefur áherslan alltaf verið á bygginguna, landslagið og umhverfið sem eina heild, þar sem innra og ytra rými spila saman. Þá eru verk eins og Þjóðarbókhlaðan lifandi dæmi um hönnun Reynis, getu hans til að búa til áhugaverð og óvænt rými í stærra samhengi umhverfis sem mótað er úr grjóti, tröðum og gróðri. Á hinum enda skalans má nefna snjóflóðavarnargarðana á Siglufirði. Þeir eru dæmi um landslagsinngrip, sem sýna um leið bæði landi og aðstæðum virðingu og opna á nýja möguleika til að nýta landið og umhverfið.
Reynir var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2010 fyrir frumherjastörf við skipulag og mótun umhverfis. Þá hafa verk hans unnið til verðlauna á alþjóðavísu, m.a. voru snjóflóðavarnargarðarnir á Siglufirði tilnefndir árið 2003 til evrópskra verðlauna í landslagsarkitektúr, Barba Rosa-European Landscape Prize en garðarnir hlutu þar sérstaka viðurkenningu.
Reynir er frumkvöðull á sviði landslagsarkitektúrs á Íslandi og hefur haft mikil áhrif á íslenskt borgarlandslag og skipulag sem við munum njóta um ókomna tíð.
Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn þann 17. nóvember í Grósku að viðstöddu fjölmenni sem fönguðu framúrskarandi hönnun. Það var ráðherra menningar og viðskipa, Lilja D. Alfreðsdóttir, sem veitti Reyni verðlaunin. Plastplan eru sigurvegarar Hönnunarverðlauna Íslands 2022 og viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun hlaut Fólk Reykjavík.
Dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands skipa þau Sigríður Sigurjónsdóttir, hönnuður og safnstjóri Hönnunarsafns Íslands sem er formaður dómnefndar, María Kristín Jónsdóttir, hönnuður, varaformaður, Ragna Fróðadóttir, hönnuður, Þorleifur Gunnar Gíslason, hönnuður, Arna Sigríður Mathiesen, arkitekt, Margrét Kristín Sigurðardóttir fyrir Samtök Iðnaðarins og Daniel Byström, hönnuður og stofnandi Design Nation.
Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæðum íslenskrar hönnunar og arkitektúrs, enda er vægi hönnunar í menningu, samfélagi og viðskiptalífi alltaf að aukast.
Hönnunarverðlaun Íslands beina sjónum að því besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi um leið og einstaka hönnuðum eða hópum hönnuða er veitt mikilvæg viðurkenning.
Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.