Viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun árið 2022 hlýtur Fólk Reykjavík
Hönnunarfyrirtækið Fólk Reykjavík hlaut í viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun 2022 á afhendingu Hönnunarverðlaunanna í kvöld í Grósku. Fyrirtækið þykir hafa lagt traust sitt á íslenska hönnun með eftirtektarverðum og góðum árangri.
Rökstuðningur dómnefndar:
Fólk Reykjavík var stofnað árið 2017 með það að markmiði að leiða saman hönnun og framleiðslu með áherslu á sjálfbærni og hringrás hráefna. Fyrirtækið notar náttúruleg og endurunnin hráefni eins og stein, málm, gler, pappír, vottað timbur úr sjálfbært nýttum skógum, endurunnið stál og endurunnin textíl. Úr þessum hráefnum hafa meðal annars verið hönnuð og framleidd borð, hillur, vasar, kertastjakar og ljós.
Góð íslensk hönnun hefur frá upphafi verið leiðarljós í rekstrinum. Dómnefnd telur að fyrirtækinu hafi tekist vel að sýna hverju hægt er að áorka með því að skapa vel hannaða og nytsamlega muni með sjálfbærni í huga. Á meðan framleiðsluferli og markaðssetning hafa gjarnan verið þrándur í götu sjálfstætt starfandi hönnuða hefur Fólk Reykjavík átt í farsælu samstarfi við ýmsa íslenska hönnuði, og þannig aukið vöruúrval sitt. Í vöruþróuninni er horft til sjálfbærni í framleiðslu og að vörurnar séu endingargóðar.
Fyrirtækið hefur haft jákvæð áhrif með fjárfestingum sínum í hönnun auk þess að vera hvatning fyrir önnur fyrirtæki að koma auga á möguleikana sem felast í samstarfi við góða hönnuði og að vinna með sjálfbærni og endurunnin hráefni.
Fyrirtækið hefur lagt traust sitt á íslenska hönnun með eftirtektarverðum og góðum árangri og því hlýtur Fólk Reykjavík viðurkenningu fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun þetta árið.
Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn þann 17. nóvember í Grósku að viðstöddu fjölmenni sem fönguðu framúrskarandi hönnun. Það var Árni Sigurjónsson, formaður stjórnar Samtaka iðnaðarins sem veitti Fólk Reykjavík verðlaunin. Hönnunarverðlaun Íslands 2022 hlutu Plastplan og Heiðursverðlaunahafi ársins er Reynir Vilhjálmsson, landslagsarkitekt.
Dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands skipa þau Sigríður Sigurjónsdóttir, hönnuður og safnstjóri Hönnunarsafns Íslands sem er formaður dómnefndar, María Kristín Jónsdóttir, hönnuður, varaformaður, Ragna Fróðadóttir, hönnuður, Þorleifur Gunnar Gíslason, hönnuður, Arna Sigríður Mathiesen, arkitekt, Margrét Kristín Sigurðardóttir fyrir Samtök Iðnaðarins og Daniel Byström, hönnuður og stofnandi Design Nation.
Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæðum íslenskrar hönnunar og arkitektúrs, enda er vægi hönnunar í menningu, samfélagi og viðskiptalífi alltaf að aukast.
Hönnunarverðlaun Íslands beina sjónum að því besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi um leið og einstaka hönnuðum eða hópum hönnuða er veitt mikilvæg viðurkenning.
Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.