Sjávarmál er nýtt útilistaverk í Vesturbæ

19. ágúst 2020

Sjávarmál, nýtt útilistarverk í Vesturbæ eftir arkitektana Baldur Helga Snorrason og David Hugo Cabo í samstarfi við Andra Snæ Magnason, rithöfund var valið úr sjötíu innsendum tillögum um nýtt útilistaverk í Vesturbæ Reykjavíkur. Það var Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri sem kynnti niðurstöðu dómnefndar í vikunni.

Niðurstaða dómnefndar var að verkið Sjávarmál sé einstakt verk sem skapi spennandi umhverfi og fjalli um aðkallandi viðfangsefni um leið og það uppfyllir öll skilyrði samkeppninnar um að auðga mannlíf í Vesturbænum.

Verkinu er ætlaður staður á sjávarkambinum við Eiðsgranda og blasir við hafi. Ekkert útilistaverk er staðsett á þessu svæði og það mun auka notagildi og aðdráttarafl svæðisins fyrir íbúa og þá sem þar eiga leið um. Á þeirri hlið listaverksins sem snýr að hafinu er steypt innbjúg skál sem safnar hljóðum hafsins og magnar þau upp með einföldu endurkasti fyrir þann sem stendur fyrir framan skálina. Á þeirri hlið sem snýr að byggð er hrjúfur veggur þar sem íslensk heiti fyrir hafið eru letruð. Áhrif loftslagsbreytinga á hafið eru höfundum hugleikin og verkinu er ætlað að bjóða upp á tækifæri fyrir þá sem eiga leið hjá til að staldra við, upplifa krafta hafsins og hlusta eftir því náttúran hefur að segja okkur.

Samkeppni um útilistaverk í Vesturbæ var haldin samkvæmt samkeppnisreglum Sambands íslenskra myndlistarmanna og í kjölfar íbúakosningar í verkefninu Hverfið mitt 2020.

Nánar um framkvæmd samkeppninnar má finna á vef Reykjavíkurborgar hér.

Dagsetning
19. ágúst 2020
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Samkeppni
  • Arkitektúr