Skapalón - Arkitektúr
Skapalón eru sjónvarpsþættir um hönnun og arkitektúr úr smiðju 101 Productions. Þáttastjórnandi er Logi Pedro, tónlistarmaður og nemi í vöruhönnun við LHÍ. Í þessum öðrum þætti er sjónum beint að arkitektúr. Viðmælendur eru Óskar Örn Arnórsson, arkitekt og doktorsnemi í sögu arkitektúrs við Colombia, Sigríður Sigþórsdóttir, arkitekt og einn eiganda Basalt arkitektastofu, hönnuðurinn Hafsteinn Júlíusson og Karitas Sveinsdóttir, innanhússarkitekt hjá Haf Studio.
Þættirnir eru frumlegir og ferskir og gefa áhorfendum áhugaverða og skemmtilega sýn inn í störf hönnuða og hvernig hönnun og arkitektúr hefur áhrif á allt okkar líf. Nám í hönnun og arkitektúr nýtur vaxandi vinsælda meðal ungs fólks og mikilvægt að þættirnir veiti góða innsýn inn í stöðu hönnunar hér á landi, og nýtist nemendum og kennurum, sem innblástur, námsefni og heimild.
“Hvað er arkitektúr? Arkitektúr er meðvituð umbreyting efnis innan umhverfis svo úr verði listræn heild. Listræna heildin sem stendur eftir er arkitektúr,“ segir Óskar Örn Arnórsson í Skapalón.
Horfðu á þáttinn hér
Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og List fyrir alla hlutu styrk úr Barnamenningarsjóði og fengu RÚV og 101 Production til liðs við sig við framleiðslu þáttanna Skapalóns. Þeim er ætlað að höfða til ungmenna þar sem ljósi er varpað á greinar hönnunar og arkitektúrs með aðgengilegum og áhugaverðum hætti. Þættirnir eru fjórir talsins og voru sýndir á RÚV á þriðjudagskvöldum í maí 2022. Miðstöðin var til ráðgjafar um innihald þáttana.