Söguleg stund þegar meistaranám í arkitektúr var sett við Listaháskóla Íslands
Á skólasetningu Listaháskóla Íslands, mánudag 23. ágúst, hófst formlega meistaranám í arkitektúr við skólann. Er þetta í fyrsta sinn sem arkitektúr er kenndur á meistarastigi á Íslandi og því í fyrsta sinn sem nemendum í arkitektúr gefst kostur á að ljúka fullnaðarnámi í arkitektúr hérlendis. Meistaranámið er tveggja ára alþjóðlegt nám og er leitt af deildarforseta, Hildigunni Sverrisdóttur.
Hildigunnur hefur undanfarna mánuði staðið að undirbúning meistaranáms í arkitektúr ásamt samstarfsfólki sínu við arkitektúrdeild, en námið byggir á margra ára samtali og þróun um brautina.
Fastráðnir kennarar í arkitektúr á meistaranámsstigi eru ásamt Hildigunni þau Massimo Santanicchia, Steve Christer, Margrét Harðardóttir, Anna María Bogadóttir og Arnar Grétarsson. Fjöldi gestakennara kemur einnig að kennslu á meðan námi stendur.
Níu nemendur hófu meistaranám í arkitektúr þessa önn en töluverður hluti þeirra hefur lokið BA prófi í arkitektúr frá Listaháskóla Íslands.
UM NÁMIÐ
Meistaranám í arkitektúr við Listaháskóla Íslands sem er til tveggja ára skiptist milli haustanna þar sem nemendur vinna saman að rannsóknum og safna efni og þekkingu sem mun svo vera stuðningur við persónuleg hönnunarverkefni hvers nemanda á vorönn.
Námið verður að miklu leyti byggt á séreinkennum og viðfangsefnum hérlendis. Árlega mun þema liggja til grundvallar sameiginlegrar rannsóknar nemenda en einnig sem hluti af hönnunarferli hvers og eins. Fyrsta þemað verður torf og íslenskur byggingararfur og rýnt verður í hvað torfið getur kennt okkur í nútímasamhengi.
Meira hér
Það má segja að hátíðlegur blær hafi sett mark sitt á setninguna þar sem hún var sannarlega sögulegur viðburður, bæði í sögu Listaháskóla Íslands en líka í sögu þjóðarinnar. Lengi hefur verið kallað eftir því að nemendur í arkitektúr geti lokið fullnaðarnámi hérlendis og þurfi ekki að sækja sér nám erlendis til að hljóta starfstitilinn arkitekt, en starfsheitið er lögverndað.