Textílfélagið fagnar 50 árum með sýningu
Á þessu ári fagnar Textílfélagið 50 ára afmæli með veglegri sýningu á Hlöðuloftinu á Korpúlfsstöðum sem ber yfirskriftina 50/100/55. Sýningin opnaði þann 1. ágúst og stendur til 25. ágúst.
Sýningin er ein af mörgum afmælissýningum félagsins á árinu en nokkrar örsýningar eru einnig haldnar í Hönnunarsafni Íslands á afmælisárinu. Sýningarstjóri er Ægis Zita. Opnunartímar sýningarinnar eru 14-18 þriðjudaga til sunnudaga. Lokað á mánudögum.
Textílfélagið var stofnað árið 1974 af nemendum og kennurum textíldeildar Myndlista- og handíðaskólans ásamt starfandi textíllistamönnum. Textílfélagið er félag menntaðra textíllistamanna og textílhönnuða. Megin markmið félagsins er að gæta hagsmuna félagsmanna sinna og kynna list þeirra og hönnun á innlendum og erlendum vettvangi. Textílfélagið er eitt af aðildarfélögum Sambands íslenskra myndlistarmanna og á fulltrúa í stjórn Textílmiðstöðvar Íslands á Blönduósi, Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs, er hluti af Baklandi LHÍ og er aðili að Norrænu textílsamtökunum (NTA) og Myndstefi.