Þykjó á Helsinki Design Week
Helsinki Design Week hefst á morgun og tekur íslenska hönnunarteymið Þykjó þátt, annarsvegar í Design Diplomacy í sendiráði Íslands í Helsinki á morgun og hinsvegar með vinnustofu fyrir börn á HDW Children´s Design Week um helgina.
Sigríður Sunna Reynisdóttir listrænn stjórnandi ÞYKJÓ ræðir við Jonathan Ingberg stofnanda byhinders í íslenska sendiráðinu í Helsinki á morgun, 8. september á Design Diplomacy. Konseptið hefur einnig verið hluti af dagskrá HönnunarMars í gegnum árin og eru viðburðir í sendiráðabústöðum þar sem tveir hönnuðir frá sitthvoru landinu eiga í samtali út frá sérsniðnum spurningaspjöldum, notuð til að hefja hönnunarmiðaða umræðu og kryfja til mergjar innblástur, daglega rútínu og vinnuferli hönnuða.
Laugardaginn 9. september verður svo Þykjó vinnustofa á HDW Children´s Design Week í Cable Factory menningarmiðstöðinni þar sem verður leidd smiðja fyrir börn með þemanu borgarskipulag í tilefni af 10 ára afmæli SuoMu stofnunnarinnar.
Viðhvetjum sem flesta i Helsinki til að kíkja við!
Um Þykjó:
ÞYKJÓ er þverfaglegt hönnunarverkefni fyrir börn og fjölskyldur þeirra á sviði textíl-, leikfanga- og upplifunarhönnunar. ÞYKJÓ er hópur hönnuða með fjölbreyttan bakgrunn sem samnýta ólíka sérþekkingu í teymisvinnu sinni. Innan vébanda ÞYKJÓ eru arkitekt, fatahönnuður og klæðskeri, leikmynda- og búningahönnuður. Hópurinn vinnur einnig náið með listafólki, vísindafólki og síðast en ekki síst - með börnum.