Úti og inni hljóta fyrstu verðlaun í samkeppni um skóla í Vogabyggð
Úti og inni arkitektar í samstarfi við Landform landslagsarkitekta og ONNO þrívíddarvinnslu hljóta fyrstu verðlaun í samkeppni um nýjan samþættan leik-og grunnskóla, frístundaheimili og félagsmiðstöð.
Reykjavíkurborg í samstarfi við Arkitektafélag Íslands efndi vorið 2023 til opinnar tveggja þrepa framkvæmdasamkeppni um heildstæðan leik- og grunnskóla, frístundaheimili og félagsmiðstöð ásamt göngu- og hjólabrú milli Vogabyggðar og skólabyggingar og útisvæðis á Fleyvangi.
Í fyrra þrepi bárust alls 24 tillögur og voru allar tillögur teknar til dóms. Vinna við seinna þrep hófs 22. september og voru fimm tillögur valdar til að vera þróaðar frekar. Tillögum á seinna þrepi var skilað þann 9. janúar.
Dómnefnd var einhuga um eftirfarandi niðurstöðu:
1. verðlaun - Tillaga nr. 21 auðkennd 58123 (Skólabrú)
2. verðlaun - Tillaga nr. 20 auðkennd 51027 (Fleyvangur)
3. verðlaun - Tillaga nr. 5 auðkennd 29029 (Skip Ketilbjarnar)
Í dómnefndaráliti um verðlaunatillöguna segir:
,,Tillagan er bæði frumleg og sterk og gefur fyrirheit um framúrskarandi og framsýna byggingu sem skapar spennandi umhverfi um skóla- og frístundastarf á svæðinu og leikur lykilhlutverk í virkni hverfisins."
Mannvirkjunum er ætlað að þjóna nýrri Vogabyggð en gert er ráð fyrir allt að 1500 íbúðum á svæðinu. Samþykkt aðalskipulag heimilar uppbyggingu 1900 íbúða. Á Fleyvangi verður einnig nýtt útivistarsvæði og almenningsrými borgarbúa og var útfærsla svæðisins hluti samkeppninnar. Brúin sem tengja á skólabygginguna við Vogabyggð verður aðal samgönguæð til og frá skóla og mikilvægt kennileiti í borgarlandinu.
Framkvæmdin verður áfangaskipt og gera má ráð fyrir byggingu fyrir allt að 720 nemendum að uppbyggingu lokinni.
Á fyrra þrepi settu keppendur fram tillögur sínar byggðar á keppnislýsingu þar sem óskað var eftir meginhugmyndarfræði tillögunnar og staðsetningu mannvirkja á keppnissvæðinu og tengingu við Vogabyggð. Keppendur á öðru þrepi fengu almennar og sértækar umsagnir dómnefndar er vörðuðu viðkomandi tillögur. Á 2. þrepi þróuðu keppendur tillögur sínar áfram.
Niðurstaða samkeppninnar verður grunnur að breyttu deiliskipulagi.
Dómnefnd, ritari dómnefndar og ráðgjafar
Tilnefnd af verkkaupa:
Ósk Soffía Valtýsdóttir, deildarstjóri nýbygginga, Skrifstofa framkvæmda og viðhalds,
Reykjavíkurborg, formaður dómnefndar.
Ásdís Olga Sigurðardóttir, verkefnastjóri á fagskrifstofu leikskólamála, Skóla – og frístundasvið, Reykjavíkurborg.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri, Skóla- og frístundasvið, Reykjavíkurborg.
Hrafnhildur Sverrisdóttir, verkefnastjóri, Skipulagsfulltrúi, Reykjavíkurborg.
(Hrönn Valdimarsdóttir, landslagsarkitekt og verkefnastjóri hjá Skipulagsfulltrúa, Reykjavíkurborg tók sæti í dómnefnd á seinna þrepi í stað Hrafnhildar Sverrisdóttur).
Tilnefndir af Arkitektafélagi Íslands:
Steve Christer, arkitekt FAÍ, Studio Granda.
Steinþór Kári Kárason, arkitekt FAÍ, Kurt og PÍ.
Tilnefnd af Félagi íslenskra landslagsarkitekta:
Sigurbjörg Ósk Áskelsdóttir, landslagsarkitekt FÍLA, Landlínur.
Ritari dómnefndar er:
Anna María Benediktsdóttir, verkefnastjóri, Skrifstofa framkvæmda og viðhalds, Reykjavíkurborg.
Ráðgjafar dómnefndar voru:
Höskuldur R. Guðjónsson, samgönguverkfræðingur (PhD), Reykjavíkurborg.
Kristinn Jón Eysteinsson, byggingatæknifræðingur, skipulagsfræðingur, Reykjavíkurborg.
Þórdís Eik Friðþjófsdóttir, verkefnastjóri á fagskrifstofu grunnskólamála, Skóla- og frístundasvið, Reykjavíkurborg.
Trúnaðarmaður dómnefndar:
Gerður Jónsdóttir.