Útlínur framtíðar – ný stefna í málefnum hönnunar og arkitektúrs
Stefna stjórnvalda í hönnun og arkitektúr til ársins 2030 er komin út en hún er mótuð í samvinnu fjölda samstarfsaðila, m.a. á stórum stefnumótunarfundum sem fóru fram í Grósku síðastliðið vor.
„Framtíðarsýn nýrrar stefnu er að aðferðafræði hönnunar og arkitektúrs sé nýtt markvisst til þess að auka lífsgæði á Íslandi með áherslu á verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið í heild. Við getum aukið gæði, bætt heilsu og mannlíf, skapað áhugaverð störf og hraðað uppbyggingu og verðmætasköpun með því að virkja krafta sem sannarlega búa í íslensku hönnunarsamfélagi,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
Leiðir að meginmarkmiðum stefnunnar tengjast fimm áherslusviðum sem nánar er fjallað um í stefnuskjalinu; verðmætasköpun, hagnýtingu hönnunar sem breytingarafls, sjálfbærri innviðauppbyggingu, menntun framsækinna kynslóða og kynningu á íslenskri hönnun og arkitektúr.
„Í dag er gleðidagur því ný stefna stjórnvalda í málefnum hönnunar og arkitektúrs lítur dagsins ljós. Stefnan er einföld og markviss og byggir á þekkingu og vinnu breiðs hóps fag- og hagaðila og kunnum við þeim miklar þakkir fyrir. Nýtt ráðuneyti menningar og viðskipta undir stjórn Lilju Alfreðsdóttur hefur sýnt málaflokknum mikinn áhuga og þar verið unnið frábært starf við mótun stefnunnar. Þetta er mikilvægur áfangi á vegferð okkar í að efla gæði, nýsköpun og breytingar sem byggja á hönnun og arkitektúr öllum til heilla,“ segir Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.
Stefnan var mótuð í samvinnu við fjölda samstarfsaðila, og hag- og fagaðila gegnum Miðstöð hönnunar og arkitektúr. Miðstöðinni var komið á fót að frumkvæði stjórnvalda árið 2008 til þess að efla íslenska hönnun og arkitektúr sem listgreinar og grundvöll þeirra til atvinnusköpunar. Miðstöð hönnunar og arkitektúrs er beintengd grasrót og atvinnulífi hönnunargreina en að henni standa níu fagfélög með alls 1200 félaga sem eiga og reka hana með stuðningi stjórnvalda í gegnum menningar- og viðskiptaráðuneytið.