Útskriftarnemar í meistaranámi LHÍ taka þátt í Dutch Design Week
Útskriftarárgangur meistaranema í hönnun 2020 frá Listaháskóla Íslands tekur þátt í Dutch Design Week 2020 með útskriftarsýningu sinni HOW LONG WILL IT LAST?
Dutch Design Week er stærsti árlegi hönnunarviðburðurinn í Norður-Evrópu. DDW 2020 verður fyrsta hönnunarhátíðin í heiminum sem heldur samtímis sýningar í raunheimi og á netmiðlum. Hátíðin fer fram dagana 17. – 25. október næstkomandi í Eindhoven og á ddw.nl
Hér er hægt að skoða kynningu fyrir sýningu meistaranemana á heimasíðu DDW.
HOW LONG WILL IT LAST?
er samsýning útskriftarnema í meistaranámi í hönnun frá Listaháskóla Íslands. Sýningin var sett upp í Ásmundarsal í ágúst síðastliðnum. Salnum var umbreytt í stórt chroma key upptökuver þar sem verk nemenda og gjörningar áttu sér stað en var um leið streymt í beinni á netinu. Þetta skapaði tvær víddir sem rannsökuðu togstreytuna á milli hins stafræna og raunverulega.
Heildarhugmyndin var að bjóða gestum í ferðalag sem væri leitt áfram af öfugsnúnum áttavita, áttavita sem beindi þér að stað sem við þekkjum ekki alveg. Með sýningunni voru verk nemenda ekki beint sýnd heldur frekar berskjölduð, með því var gerð tilraun til að snúa sambandi verksins og áhorfandans á hvolf; veita hvoru um sig jafnt umboð. Þannig að þegar gestir komu á sýninguna urðu þeir um leið hluti af sýningunni í beinni á netinu. Með því rannsökuðu gestirnir hvar mörk hins raunverulega og skáldlega, staðbundna og óstaðbundna liggja.
Það efni sem stendur eftir sýninguna eru margra daga upptökur af sýningunni sem var streymt; tilraunir með verkin á sýningunni, ólíkar sviðsmyndir, gjörningar og vinnusmiðjur sem áttu sér stað á meðan sýningin stóð.
Hópurinn samanstendur af gagnrýnum hönnuðum, sem einsetja sér opið og skoðandi hugarfar frekar en lausnarmiðað. Í stað þess að bjóða upp á ferðalag með skýra endastöð býður hópurinn gestum að fara óþekkta leið sem felur í sér togstreytu, spennu, misskilning, og snertifleti fyrir rökræður.
Hönnuðirnir sem taka þátt í sýningunni eru:
Argitxu Etchebarne, Christopher Dake-Outhet, Harpa Hrund Pálsdóttir, Lu Li, Ma Kowasz og Sveinn Steinar Benediktsson. Kolbrún Þóra Löve er sýningarstjóri.
DDW
Dutch Design Week er stærsti árlegi hönnunarviðburðurinn í Norður-Evrópu. Þar eru kynnt verk og hugmyndir meira en 2600 hönnuða og að jafnaði eru gestir yfir 355.000 talsins, allsstaðar að. Viðburðurinn er vanalega haldin í Eindhoven í Hollandi.
Vegna Covid-19 verður DDW árið 2020 bæði haldið í raunheimi, í Eindhoven sem og á ddw.nl í netheimi.
Á meðan hátíðinni stendur, dagana 17-25. október 2020, býður ddw.nl upp á ýmiskonar möguleika og viðburði sem eru hannaðir sérstaklega fyrir stafræna miðlun hátíðarinnar. Síðastliðna fjóra mánuði hefur DDW uppfært og endurhannað alla sína miðla til að mæta þörfum stafrænnar hönnunarhátíðar. Með stafræna hluta hátíðarinnar verður DDW gert kleift að sýna verk frá enn fleiri heimshornum en áður, aðgangur á stafræna hluta hönnunarvikunnar er ókeypis og þetta er því gott tækifæri fyrir alla sem hafa áhuga á því sem er að gerast í hönnunarheiminum í dag.