Við getum hannað framtíðina
Viðtalið birtist fyrst í 9. tölublaði HA, 2019.
Í starfi sínu ferðast vöruhönnuðurinn og framtíðarfræðingurinn Helga Jósepsdóttir um heimsbyggðina og veitir ráðgjöf um það sem er okkur flestum hulin ráðgáta – framtíðina.
Frá Austfjörðum til Mið-Austurlanda
Helga hefur um margt farið óvenjulegar leiðir í lífinu. Hún er fædd á Eskifirði, lærði málmsmíði í menntaskóla og nam vöruhönnun við Listaháskóla Íslands og IED-hönnunarháskólann á Spáni. Eftir útskrift vorið 2011 bauðst Helgu starfsnámsstaða við hinn nafntogaða Domaine de Boisbuchet sumarskóla í Frakklandi. Hlutirnir æxluðust þannig að stuttu síðar var hún orðin framkvæmdastjóri skólans og gegndi þeirri stöðu í tvö ár. Að því loknu starfaði hún hjá hönnunarstofunni SPACE10 í Kaupmannahöfn og vann þar meðal annars að aukinni sjálfbærni í matvælaframleiðslu og framleiðsluaðferðum fyrir IKEA. Eftir rúmt ár í Danmörku hélt hún suður á bóginn til Spánar þar sem hún þróaði frumkvöðlasetur fyrir framtíðarmenntun skapandi greina (e. Future of Creative Education) við IED-hönnunarháskólann. Frumkvöðlasetrið er enn starfandi og hefur hlotið alþjóðlegar viðurkenningar frá fjölmiðlum á borð við Fast Company, The New York Times og Dezeen. Í fyrra hóf Helga að vinna með fyrirtækinu Fast Forward (FFWD) í Madrid þar sem hún vinnur flesta daga við að spá í strauma og stefnur framtíðarinnar. Hún unir hag sínum vel í höfuðborginni og hefur sérstakt dálæti á spænskri tungu og matarmenningu.
FFWD var stofnað árið 2015 og hefur vaxið hratt undanfarin misseri. Fyrirtækið er með starfsemi í þremur löndum og vinnur fyrir stjórnvöld og stofnanir í öllum heimshornum. „Við höfum þróað hugbúnað sem greinir umræðu á netinu út frá hugmyndum, vilja og löngunum fólks. Niðurstöðurnar birtast á línuriti sem sýnir hvert umræðan stefnir og hvort hún sé jákvæð eða neikvæð. Við vinnum þetta í skrefum, greinum klasa af rísandi hugmyndafræði, finnum rými fyrir ný tækifæri á markaðnum og segjum til um hverju þarf að breyta til að komast á áfangastað. Það getur til dæmis verið smávægileg lagabreyting eða eitthvað umfangsmeira, eins og að breyta viðhorfum eða hegðun fólks.“
Þrettán starfsmenn starfa hjá FFWD og eru þeir flestir með menntun í hönnun, arkitektúr, forritun, félagsfræði og markaðsfræði. „Ferill verkefna er yfirleitt þannig að við kynnum okkur viðskiptavininn, óskum eftir að vera á vettvangi í nokkra daga, greinum hindranir og komum með tillögur að úrbótum. Við mælum árangur og höfum hannað til þess nokkra mælikvarða, til að mynda er starfsánægja og viðvera í vinnunni ákveðin vísbending um árangur verkefna. Fyrirtæki og stofnanir eru að hverfa frá því að meta allt einungis fjárhagslega og það er stór hugarfarsbreyting. Vellíðan fólks er hið nýja viðmið og við sjáum einnig í gögnum okkar að heimsbyggðin vill betri heim – sama hvernig á það er litið.“
Eitt af þeim verkefnum sem Helga hefur verið að vinna við undanfarið er stefnumótunarvinna með ríkisstjórn Sameinuðu arabísku furstadæmanna. „Stjórnvöld þar í landi eru að átta sig á því að þau verði að hafa plan B ef olíuauðlindir klárast. Þetta er einræðisríki og ráðamenn eiga auðvelt með að breyta löggjöfinni sem tryggir að mál fá skjóta afgreiðslu. Stefnumótun er unnin til langs tíma því hver einræðisherra hefur jafnvel hálfa mannsævi til að koma hugsjónum sínum í framkvæmd. Samkvæmt lögum þá eiga öll ráðuneyti að vera nýjungagjörn og þar liggja fjárhagslegir hvatar að baki. Við komum inn og þjálfum starfsfólk ráðuneytanna í skapandi hugsun. Stjórnvöld ganga hreint til verks og það er gott að vinna með þeim.“
Ég held að það sé tilhneiging til að skilgreina hönnun of þröngt. Fyrir mér er hönnun og nýsköpun nokkurn veginn það sama.
Sveigjanleiki og sýndarveruleiki
Víkjum nú sögunni aftur til Spánar en þar hefur orðið ákveðin hugarfarsbreyting eftir margra ára efnahagslægð. Horft er til aukinnar nýsköpunar í atvinnulífinu og margir telja að hún muni leika stórt hlutverk í glímunni við þau samfélagslegu viðfangsefni sem blasa við heimsbyggðinni. Í því skyni keppast nú stofnanir við að móta nýsköpunarstefnur og stjórnir fyrirtækja eru að átta sig á nytsemi hönnuða við slíka vinnu. „Spánverjar eru með hálfgerða minnimáttarkennd eftir að hafa misst heimsveldi sitt og finnst þeir ekki vera að standa sig í alþjóðlegum samanburði. Þeir eru því móttækilegir fyrir breytingum og nýrri hugsun þótt það séu alltaf margar íhaldsraddir sem þarf að eyða mikilli vinnu í að sannfæra líka. Hönnuðir eru þjálfaðir í að sjá hlutina út frá mismunandi sjónarhornum, taka mörg skref fram á við í einu og prófa prótótýpur áður en lagt er í endanlegar framkvæmdir. Hönnunarhugsun snýst um að leysa vandamál hversdagsins með hliðsjón af þeim aðstæðum sem eru ríkjandi í heiminum. Framtíðarhugsun er fólgin í því að hanna ákveðnar aðstæður og spá fyrir um hvaða efnahagslegu, félagslegu, pólitísku, tæknilegu og umhverfislegu áhrif sá raunveruleiki myndi hafa.“
Ferðamennska og framtíð hennar er einnig málefni sem er Helgu hugleikið. „Vesturlandabúar í forréttindablindu sinni ferðast mikið af því það er skemmtilegt. Á sama tíma er verið að eyðileggja jörðina. Hjarðmennskuhegðunin er slík að flestir ferðast á sömu staðina en vilja þó vera þar einir. Það er ekki ólíklegt að ferðamennska verði bönnuð í framtíðinni eða aðgangsstýrð að stórum hluta en þá opnast jafnvel aðrir möguleikar eins og ferðalög með sýndarveruleika.“
Rýnum aðeins í mannauðinn og menntakerfið. Komandi kynslóðir munu þurfa að kljást við samfélagslegar áskoranir af slíkri stærðargráðu að manni fallast eiginlega hendur. Hvernig undirbúum við æskuna fyrir viðfangsefni framtíðarinnar? „Við verðum að öðlast betri aðlögunarfærni, stunda símenntun alla ævi – vera skapandi og taka meiri ábyrgð. Í menntakerfinu vil ég sjá innleiðingu á skapandi hugsun og aðferðafræði í meira mæli á lægri skólastigum. Ég held að kjarnafög í háskólum verði þau sömu eitthvað áfram en með öðrum áherslum. Námið þyrfti að vera sveigjanlegra og gera auknar kröfur um samvinnu þvert á námsgreinar. Mörkin á milli námssviða myndu smám saman verða óljósari.“
Hönnun er ekki eingöngu bundin við að hanna nytjahluti til heimilisins eða fegra umhverfið. Össur, Marel og ýmis líftæknifyrirtæki eru dæmi um íslensk fyrirtæki sem búa yfir háklassahönnun á heimsmælikvarða sem kemur mörgum að gagni og eykur lífsgæði fólks.
Aukin vitund um íslenska hönnun
Eftir marga ára fjarveru finnst Helgu erfitt að leggja mat á hönnunarsenuna hérlendis. Hún segist þó verða þess áskynja að vitund um íslenska hönnun sé að aukast erlendis. „Ég held að það sé tilhneiging til að skilgreina hönnun of þröngt. Fyrir mér er hönnun og nýsköpun nokkurn veginn það sama. Hönnun er ekki eingöngu bundin við að hanna nytjahluti til heimilisins eða fegra umhverfið. Össur, Marel og ýmis líftæknifyrirtæki eru dæmi um íslensk fyrirtæki sem búa yfir háklassahönnun á heimsmælikvarða sem kemur mörgum að gagni og eykur lífsgæði fólks. Hönnun á þjónustu, aðferðafræði, ferlum og hefðum er líka ört vaxandi iðnaður sem ég tel að verði enn meira ríkjandi í hönnunarheiminum á næstu árum og áratugum.“
Það liggur ljóst fyrir að ef það er einn eiginleiki sem framtíðarfræðingur verður að búa yfir – þá er það bjartsýni. „Eitt sinn las ég að sönn hamingja fælist í þeirri tilfinningu að finnast maður vera til gagns. Ég stend í þeirri trú að tilgangur hönnunar sé sá sami. Við mannfólkið erum ekki strengjabrúður í heimi sem einhver annar hefur hannað, við sköpuðum okkar samfélag sjálf. Við verðum að hafa trú á mannkyninu, okkur sjálfum og trú á því að við getum búið til betri heim. Það erum við sem hönnum framtíðina – hegðun og hugsun fólks.“
Við verðum að öðlast betri aðlögunarfærni, stunda símenntun alla ævi – vera skapandi og taka meiri ábyrgð. Í menntakerfinu vil ég sjá innleiðingu á skapandi hugsun og aðferðafræði í meira mæli á lægri skólastigum.