Vilhjálmur Hjálmarsson arkitekt er látinn 85 ára að aldri
Vilhjálmur Hjálmarsson arkitekt og félagsmaður okkar er látinn 85 ára að aldri. Vilhjálmur var virkur í félagsstörfum arkitektafélagsins og var formaður arkitektafélagsins 1979.
Vilhjálmur fæddist á Seyðisfirði 29. júní 1938 og ólst þar upp. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri og nam arkitektúr við Edinburgh College of Art, School of Architecture. Hann tók lokapróf þaðan 1964 og fékk sérstaka viðurkenningu frá skólanum fyrir góðan námsárangur. Árið 1965 stofnaði hann Teiknistofuna við Óðinstorg ásamt Helga Vilhjálmssyni bróður sínum, arkitekt, og Vífli Oddssyni verkfræðingi.
Vilhjálmur starfaði sem arkitekt í tæp 60 ár. Hann teiknaði opinberar byggingar, íbúðir, iðnaðar- og verslunarbyggingar og íþróttamannvirki. Meðal þeirra bygginga sem hann og félagar hans á Teiknistofunni Óðinstorgi teiknuðu eru Útvarpshúsið í Efstaleiti, Áskirkja í Laugardal, Minningarkapella Jóns Steingrímssonar á Kirkjubæjarklaustri, Valhúsaskóli á Seltjarnarnesi, skeifulaga blokkir við Flyðrugranda, hús Öryrkjabandalags Íslands við Hátún, Menntaskólinn á Ísafirði, Ráðhúsið í Bolungarvík, Sólborg á Akureyri og Vonarland á Egilsstöðum. Auk þess að teikna nýjar byggingar sérhæfði hann sig í viðhaldi og endurgerð gamalla bygginga.
Eiginkona Vilhjálms er Borghildur Óskarsdóttir, myndlistarmaður í Reykjavík. Dætur Vilhjálms og Borghildar eru Ósk, f. 1962, myndlistarmaður í Reykjavík, og Björg, f. 1965, hönnuður í Reykjavík.