Crossover by Adorno
Samsýning íslenskra og erlendra hönnuða í sýningunni Crossover eftir Adorno á London Design Fair, dagana 19-22. september 2019.
Á sýningunni Crossover eftir Adorno mætist úrval verka eftir sjálfstætt starfandi hönnuði frá 11 löndum. Hönnuðirnir og verkin eru vandlega valin af sýningarstjórum frá hverju landi, markmiðið erað sýna stöðu hönnunar í ólíkum löndum og það áhugaverðasta sem er að gerast á hverjum stað.
Átta íslenskir hönnuðir taka þátt í sýningunni en sýningarstjórar Reykjavík Collection eru María Kristín Jónsdóttir og Hlín Helga Guðlaugsdóttir. Hönnuðirnir sem taka þátt í Crossover í London eru: Studio Hanna Whitehead, Ragna Ragnarsdóttir, 1+1+1, Theodóra Alfreðs, Studíó Flétta, Björn Steinar Blumenstein, Tinna Gunnarsdóttir, Rúna Thors & Hildur Steinþórsdóttir.
Aðrir hönnuðir í sýningunni koma frá Danmörku, Frakklandi, Ítalíu, Belgíu, Mexíkó, Finnlandi, Svíþjóð, Sviss, Tyrklandi og Noregi. Hér er hægt að skoða alla hönnuði og lesa nánar um þá á heimasíðu Adorno hér.
Hjá Adorno er lögð áhersla á verk hönnuða sem dansa á mörkum listar, hönnunar og handverks. Hönnuði sem móta senuna og þróa nýtt tungumál hönnunar ásamt því að viðhalda aldgömlum handverkshefðum í bland við nýrri og tæknilegri. Á sýningunni Crossovers by Adorno eru dregin fram fagurfræðileg einkenni hverrar senu fyrir sig og efnt til samtals á milli ólíkra þjóða, samtal sem hefst í hönnun en varpar líka ljósi á menningar- og samfélagsleg málefni.
Sýningin fer fram í Old Truman Brewery í London og opnar 19. september á London Design Fair. Hægt er að fylgjast með sýningunni á samfélagsmiðlum Adorno: Facebook og Instagram.
Hér má svo finna viðburðinn á Facebook.
Hönnunarfyrirtækið Adorno var stofnað árið 2017 af þeim Kristian Snorre Andersen og Martin Clausenog sérhæfir sig í að búa til og stuðla að samstarfi og samtali á milli hönnuða. Þeir framleiddu hönnunarsýninguna Now Nordic sem var ein af lykilsýningunum á HönnunarMars 2019 og fór fram í Hafnarhúsinu. Þar var áherslan á norræna samtímahönnun en með sýningunni Crossover hafa þeir tekið þetta skrefinu lengra með því að leiða saman hönnuði frá ólíkum löndum heimsins.