Sex íslenskir hönnuðir taka þátt í stafrænu hönnunarsýningu Adorno, Virtual Design Destination: New Reality
Samsýning danska hönnunargallerísins Adorno, Virtual Design Destination: New Reality, er hluti af London Design Festival 2020 og fer öll fram í sýndarveruleika. Íslenskir hönnuðir taka þar þátt ásamt ríflega 100 kollegum sínum frá 14 löndum. Sýningarstjórar eru Hlín Helga Guðlaugsdóttir og María Kristín Jónsdóttir.
Íslensku hönnuðirnir sem taka þátt eru Valdís Steinarsdóttir, Studio Flétta (Birta Rós Brynjólfsdóttir og Hrefna Sigurðarsdóttir), Björn Blumenstein, Ýr Jóhannsdóttir, Sigríður Birna Matthíasdóttir og Halldór Eldjárn.
Í nýjum raunveruleika myndast tækifæri til endurnýjunar. Á þessum tímapunkti, í fljótandi umskiptingarfasa, fá jarðarbúar tækifæri til að endurhugsa og endurbyggja í takt við þarfir jarðarinnar.
Íslenski hluti sýningarinnar ber yfirskriftina Tengingar (e. Attunement) og veltir upp spurningum um samband okkar við jörðina og kannski okkur sjálf. Hönnuðirnir rannsaka og vinna með vannýttar auðlindir náttúrunnar, endurnýtingu og tilraunir með orsakasamhengi tækni, manns og annarra fyrirbæra náttúrunnar. Sýningin Virtual Design Destination: New Reality byggist upp af 14 stafrænum heimum og íslensku sýningarstjórarnir bjóða uppá hljóðdæmi um hjartslátt móður jarðar í heimi innblásnum af bráðnun jökla, þar sem áhrif hamfarahlýnunar eru áþreifanleg og raunveruleg.
Okkur langaði að snerta á því að loftslagshamfarirnar eru ennþá hér, í skjóli heimsfaraldurs. Bráðnun jökla er áþreifanleg birtingarmynd loftslagsvandans og leið til að tengjast beint hjartslætti jarðarinnar, sem vísar í titilinn Tengingar. Okkur fannst líka margir hönnuðir vera á þeim nótum. Það eru um 300 jöklar á Íslandi. Allir bráðna þeir á miklum hraða núna og sumir eru að hverfa alveg, líkt og OK sem var úrskurðað látið í fyrra. Á enn stærri mælikvarða er norðurskautsísinn að bráðna á fordæmalausum hraða. Þannig að þetta er allt mjög raunverulegt og við þurfum að bregðast við í samræmi við það. Hönnuðir og allir aðrir íbúar jarðarinnar - fyrir framtíðina.
Þetta er í fyrsta sinn sem Adorno kynnir Virtual Design Destination, sýningu í sýndarveruleika með yfir 200 hönnunarmunum frá 14 löndum. Undirbúningur sýningarinnar hófst í miðjum Covid - 19 faraldri þar sem sýningarstjórar landanna 14 voru beðnir um að rýna í sérstakar upplifanir, hugsanir og þemu á tímum samkomubanns og takmarkana. En einnig hvernig mætti virkja hönnun sem afl til breytinga og til að rannsaka nýjan raunveruleika sem blasir við.
Sýningin opnar 12. september og stendur til 20. september og nýtir tæknina til hins ítrasta. Á hverjum degi eru tvö lönd kynnt til sögunnar, þar sem gestir geta skyggnst inn í hugarheim hönnuða, hitt þá í gegnum myndbandsviðtöl og séð munina í þeim sýndarveruleika sem var sérstaklega búinn til í kringum þemað. Síðast en ekki síst er sýningin öllum aðgengileg, hvar sem þeir eru niðurkomnir. Einnig geta gestir mátað um 100 muni frá hönnuðum sýningarinnar inn á sínu eigin heimili með aðstoð viðbætts veruleika (e. augmented reality). Boðið er upp á leiðsögn um þessar stafrænu hönnunarnýlendur þegar þeim er hleypt af stokkunum, hver af annarri og við hvetjum sem flesta til að skrá sig hér. Leiðsögn Íslands fer fram mánudaginn 14. september kl. 9 um morguninn.
Þátttaka Íslands er í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs styrkt af Íslandsstofu og sendiráði Íslands í London.
Þetta er fjórða sýningin á vegum rafræna hönnunargallerísins Adorno, sem íslenskir hönnuðir taka þátt í og Hlín Helga og María Kristín sýningarstýra. Hönnuðir þessar sýningar slást því í hóp þeirra Brynjars Sigurðarsonar, Garðars Eyjólfssonar, Hugdettu og 1+1+1, Hönnu Dís Whitehead, Rögnu Ragnarsdóttur, Theodóru Alfreðsdóttur, Tinnu Gunnarsdóttur og TOS (Hildar Steinþórsdóttur og RúnuThors), sem áður hafa sýnt á þeirra vegum.