95 dagar í HönnunarMars
HönnunarMars í maí 2021 fer fram dagana 19-23. maí. Valnefnd hátíðarinnar hefur legið yfir umsóknum síðustu vikur og er dagskrá hátíðarinnar í ár byrjuð að taka á sig forvitnilega og fjölbreytilega mynd.
Ljóst er að viðburðir og sýningar á dagskrá HönnunarMars 2021 verða rúmlega 100 talsins þar sem lykilorð á borð við endurvinnsla, framtíð, framleiðsla, rannsóknir, skynfæri, nýsköpun og sjálfbærni koma meðal annars við sögu.
Hátíðin mun nú sem fyrr varpa ljósi á þann gífurlega sköpunarkraft og grósku sem finna má í samfélagi íslenskra hönnuða og arkitekta, ekki síst á þessum tímum þar sem þörfin fyrir nýjar leiðir hefur sjaldan verið brýnni.
Á HönnunarMars leiðir framsækin hönnun og nýjungar saman sýnendur og gesti. HönnunarMars boðar nýjungar og óvænta nálgun. Hátíðin er lífleg höfn hugmynda, ólíkra sjónarmiða og þekkingar, hreyfiafl sem auðgar og bætir samfélagið.
HönnunarMars er boðberi bjartsýni og skapandi krafta í samfélaginu. Þar gefst tækifæri til að beina sjónum að hönnun sem drifkraft til nýsköpunar og sýna hversu mikilvægu hlutverki þessar greinar gegna í samfélaginu.
HönnunarMars er ein af sex borgarhátíðum Reykjavíkur.