Metfjöldi umsókna í fyrstu úthlutun Hönnunarsjóðs 2021
Umsóknarfresti í Hönnunarsjóð lauk á miðnætti um fyrstu úthlutun ársins 2021. Alls bárust 150 umsóknir, sem er langmesti fjöldi umsókna sem sjóðnum hefur borist í hefðbundnu umsóknarferli undanfarin ár.
Þessi mikli fjöldi umsókna er staðfesting á að þörfin fyrir Hönnunarsjóð fer vaxandi í takti við þær miklu samfélagslegu breytingar sem við erum að upplifa og kalla á nýsköpun á öllum sviðum, ný störf, grænt hagkerfi, stafræna umbreytingu og samfélagslega nýsköpun.
Menntuðum hönnuðum og arkitektum hefur fjölgað verulega enda skapandi nálgun í verkefnum og kerfum aldrei jafn mikilvæg og einmitt núna. En tækifæri þeirra til að fjármagna nýskapandi verkefni hafa ekki vaxið í réttu hlutfalli við aukninguna.
Sjóðurinn hefur haft 50 milljónir króna til úthlutunar á ári frá árinu 2016, en sjóðurinn sat eftir í innspýtingu stjórnvalda í sjóði á sviði skapandi greina á fjárlögum 2021.
Úthlutun fer fram þann 4. mars næstkomandi.
Opnað verður fyrir seinni úthlutun ársins 2021 þann 9. mars og fer sú úthlutun fram 7. október.
Nánari upplýsingar um sjóðinn má finna á heimasíðu sjóðsins.