Aðalfundur Miðstöðvar hönnunar og arkitektúr og skýrsla 2023/2024
Miðvikudaginn 29. maí fór fram aðalfundur Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs í Grósku fyrir stjórnir og hluthafahóp. Þá kom út ársskýrsla Miðstöðvarinnar fyrir árið 2023 - 2024.
„Við viljum veg hönnunar sem mestan og að fagþekking hönnuða nýtist sem best á sem flestum sviðum samfélagsins. Hönnuðir hugsa á skapandi hátt þvert á starfsgreinar, aðferðir, geira og efni – þeirra er ekki aðeins að búa til aðlaðandi vörur eða þjónustu heldur móta hönnuðir líka ný kerfi og betri lausnir til hagsbóta fyrir okkur öll. Í samfélagi þar sem enginn skortur er á hugmyndum og vörum eru greiningarhæfni og gagnrýnin hugsun sífellt mikilvægari. Góð hönnun fær okkur til að hugsa öðruvísi, um okkur sjálf og framtíðina.“
Úr ávarpi Lilju Dögg Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra í nýrri skýrslu Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs
Á fundinum var farið yfir ársreikning og helstu verkefni og starfsemi Miðstöðvarinnar á liðnu ári þar sem kenndi ýmissa grasa. Helstu verkefni á borð við HönnunarMars, Hönnunarsjóð og Hönnunarverðlaun hafa vaxið og dafnað ásamt því að ný spennandi verkefni hafa bæst við fjölbreytta starfsemi.
Þá fóru fram árleg stjórnarskipti, þar sem fráfarandi stjórnarfólki var þakkað fyrir vel unnin störf og nýtt boðið velkomið. Í ár var í fyrsta sinn farin sú leið að auglýsa eftir framboðum í laus sæti innan stjórna og nefnda ólíkra verkefna Miðstöðvarinnar. Það reyndist vel, mörg framboð bárust og þessi leið verður endurtekin að ári.
Hluthafaráð skipað af stjórnum félaganna:
- Nýr fulltrúi: Þorbergur Halldórsson, gullsmiður
- Fráfarandi: Ása Gunnlaugsdóttir, gullsmiður
Stjórn HönnunarMars
- Nýr fulltrúi: Elín Hrund Þorgeirsdóttir, vöruhönnuður
- Fráfarandi: Sigrún Jóna Norðdahl, keramiker
Stjórn Hönnunarsjóðs
- Nýr fulltrúi: Þorleifur Gunnar Gíslason, grafískur hönnuður
- Fráfarandi: Snæfríð Þorsteinsdóttir, grafískur hönnuður
- Nýr varamaður: Sæunn Huld Þórðardóttir, fatahönnuður
- Fráfarandi varamaður, Egill Sveinbjörn Egilsson, vöruhönnuður
Dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands
- Nýr fulltrúi: Sigurlína Margrét Osuala, keramiker
- Fráfarandi: Þorleifur Gunnar Gíslason, grafískur hönnuður
- Nýr varamaður: Svanhildur Gunnlaugsdóttir, landslagsarkitekt
- Fráfarandi: Sigurlína Margrét Osula, keramiker
Úthlutun hönnunarlauna
- Nýr fulltrúi: Ragnar Frank Kristjánsson, landslagsarkitekt
- Fráfarandi: Ármann Agnarsson, grafískur hönnuður
- Nýr varamaður: Ása Gunnlaugsdóttir, gullsmiður
- Fráfarandi: Rósa Dögg Þorsteinsdóttir, innanhússarkitekt
„Við lifum í breyttum heimi sem kallar á nýjar áherslur í nýsköpun, með umhverfi, mannlíf og velsæld að leiðarljósi. Innan hönnunar, arkitektúrs eigum við einstaka, kraftmikla og áræðna grasrót og fyrirtæki á sviðinu sem við tökum oft sem gefna, þar liggja tækifæri til að lyfta og efla með markvissum hætti. Með réttri nálgun getur Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og Hönnunarsjóður orðið lykilverkfæri íslenskra stjórnvalda til að ná fram jákvæðum samfélagsbreytingum til framtíðar. Framtíðin er svo sannarlega björt og með markvissum aðgerðum getum við í sameiningu nýtt þau fjölmörgu tækifæri sem hönnun og arkitektúr skapa.“
Úr ávarpi Höllu Helgadóttur í skýrslu Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs
Að loknum fundi var gestum boðið upp á léttar veitingar. Hér fyrir neðan má sjá myndir frá Víði Björnssyni.