Pítsastund og Hæ/Hi: Vol III: Velkomin á 3daysofdesign
Sýningarnar Pítsastund og Hæ/Hi: VOL III verða í íslenska sendiráðinu í Kaupmannahöfn á dönsku hönnunarhátíðinni 3daysofdesign sem fer fram dagana 12-14. júní.
Í anddyri sendiráðsins verður þriðja sýning Hæ/Hi: Designing Friendship- hópsins, samvinnuverkefni hönnuða og hönnunarteyma frá Íslandi og Seattle. Að þessu sinni taka þau fyrir þá hluti og athafnir sem tengjast heimkomu og brottför, móttöku og kveðjustund undir yfirskriftinni Welcome. Sýningin var fyrst sýnd á HönnunarMars 2024.
Þátttakendur voru spurðir hvernig hægt væri að bæta upplifunina við að koma inn á eða fara út af heimili þannig að það vektimeð heimilisfólki og gestum notalegheit og ró og væri gert með vináttu og gestrisni að leiðarljósi.
Á sýningunni eru verk eftir Amanda Ringstad (US), Fin (US), fruitsuper (US), Gabriel Stromberg (US), Hann Elias (US), Studio Hanna Dis Whitehead (IS), Hugdetta (IS), John Hogan (US), Jón Helgi Hólmgeirsson (IS), Seisei Studio (IS), Sidona Bradley (US), Theodora Alfredsdottir (IS), Thorunn Arnadottir (IS), Weird Pickle (IS) og Seisei Studio (IS).
Flétta og Ýrúrarí bjóða gestum í Kaupmannahöfn upp á verðlaunapítsur úr afgangsull á sýningunni Pítsastund, sem verður staðsett fyrir utan sendiráðið. Verkefnið, sem var valið verk ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands í fyrra, varpar með aðferðum hönnunar ljósi á nýtingu afgangsafurða og verðmæti þeirra með skemmtilegum hætti. Hönnuðir þæfa ullarpítsur úr afgöngum frá íslenskum ullariðnaði og selja viðskiptavinum eins og um venjulegar pítsur væri að ræða. Sviðsmynd verksins er byggð í kringum nálaþæfingarvél í hlutverki pítsuofns og leikgleðin er allsráðandi.
Einnig verður til sýnis verkefnið Snúningur eftir Fléttu í samstarfi við Icelandair, þar sem hönnuðirnir nýta ríkan heim efniviðar úr einkennisfatnaði flugfélagsins sem hefur nú lokið hlutverki sínu, allt frá hnöppum og höttum, pífum og sylgjum til klúta og kraga, og taka skapandi snúning á spurningunni – getur einkennisfatnaður orðið að tösku?
Heimilisfang:
Strandgade 89, 1401 København
Opnunarhóf: Þriðjudaginn 11. júní kl. 17.30 - 19.30.
Hér má lesa nánar um sýningar í íslenska sendiráðinu á 3daysofdesign.
Sýningarnar eru framleiddar af hönnunarteymunum í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, íslenska sendiráðið í Danmörku, Íslandsstofu og Icelandair.
Danska hönnunarhátíðin 3daysofdesign fer fram dagana 12. - 14. júní í Kaupmannahöfn. Yfir 250 þátttakendur taka þátt í hátíðinni í ár en hún fór fyrst fram árið 2013 og hefur vaxið og dafnað í gegnum árin og er nú ein sú stærsta í Skandinavíu.