Weird Pickle hannar einkenni Hokkaido Innovation Week
Skipuleggjendur Hokkaido Innovation Week, sem hafa sterk tengsl við Skandinavíu, fengu hönnunarstofuna Weird Pickle til að búa til vörumerki sem myndi endurspegla anda þessarar nyrstu eyju Japans.
Í janúar 2024 fór fyrsta Hokkaido nýsköpunarvikan fram. Weird Pickle er hönnunarstofa í hjarta Reykjavíkur sem var fengin til að hanna vörumerki fyrir hátíðina. Skipuleggjendur hátíðarinnar vildu að vörumerkið hefði norræn áhrif og „crazy“ nálgun til að styrkja sambandið enn frekar. Vörumerkið endurspeglar hina ríku hefð í landbúnaði og sjómennsku Sapporo, stærstu borg Hokkaido.
"Verkefnið kom til fyrir tilstuðlan samstarfsaðila í Noregi sem tengdi okkur við verkefnastjóra hjá Startup Hokkaido. Þau komu á Nýsköpunarviku Íslands fyrir ári síðan og heilluðust af umgjörðinni. Í kjölfarið hófum við samstarf sem endaði með ferð til Sapporo í janúar 2024.
Samstarfið gekk vel enda heillast þau af norrænni menningu og hönnunarstíl. Norðurlöndin búa við nýsköpunarumhverfi sem heillar heiminn og Japan hefur verið í ákveðinni lægð síðustu áratugi en er nú að koma sterkt aftur með nýjar áherslur. Japan hefur til að mynda nýlega opnað fyrir það sem kallast „Digital Nomad Visas“ sem eiga að laða að metnaðarfulla frumkvöðla til landsins.
Það sem kom mest á óvart var hversu einfalt ferlið var. Fjarlægðin og fjöldi fólks sem kom að verkefninu hefði vel getað flækt ferlið og teygt tímarammann, en allt gekk eins og í sögu og við fundum fyrir gífurlegu trausti.
Markmiðið var að tengja saman norræna og japanska hugsun. Hokkaido Innovation Week (HIW) hét áður Tech BBQ Sapporo og var í samstarfi við Innovation Week TechBBQ í Kaupmannahöfn, þannig að tengslin við Norðurlöndin voru þegar sterk. Hokkaido-héraðið er þekkt fyrir landbúnað en þemu hátíðarinnar eru AgriTech, Green Transformation og SpaceTech. Myndmálið vísar til sambands jarðvegs og sólar, auk lífrænna efna og geimtækni. Táknin vísa til rótgróins stimpilkerfis sem þar í landi kallast „Hanko“ þar sem einstaklingar sem og fyrirtæki hafa þar til gerða sérhannaða einka-stimpla til að skrifa undir samninga. Þar er vísun í fjölbreytileika fólksins sem að verkefninu kemur og hvaða áhrif hátíðin getur haft á framtíð héraðsins.
Þrotlaus vinna okkar með Iceland Innovation Week sýndi verkefnisstjórum HIW hversu langt ný nálgun á þekktum málum getur náð og við getum verið stolt af því að litla landið okkar sé að hafa áhrif á umbreytingu í þriðja stærsta hagkerfi heims. Þess má geta að við unnum til gullverðlauna á FÍT í Menningar- og viðburðarmörkun fyrir Iceland Innovation Week auk silfurverðlauna fyrir merki hátíðarinnar."