HönnunarMars 2024 - sýningar sem standa lengur
HönnunarMars 2024 lauk sunnudaginn 28. apríl eftir velheppnaða 5 daga hátíð. Alls voru 100 sýningar og 200 viðburðir á dagskrá og því ekki ólíklegt að einhverjum hafi ekki tekist að sjá allt sem var á dagskrá. Það eru þó nokkrar sýningar sem standa opnar lengur svo enn er hægt að njóta HönnunarMars þó hátíðinni sjálfri sé lokið.
Hér að neðan má sjá yfirlit yfir þessar sýningar og hversu lengi þær standa opnar.
Annarsflokks
Hönnunar- og rannsóknarverkefnið Annarsflokks, sýnir fram á notagildi og gæði annarsflokks æðardúns.
Íris Indriðadóttir og Signý Jónsdóttir, hjá Studio Erindrekum eru vöruhönnuðir og æðarbændur og hafa stundað æðarrækt á Skálanesi í Seyðisfirði. Í þessu verkefni vinna þær í nánu samstarfi með fatahönnuðinum og textílsérfræðingnum Sigmundi Páli Freysteinssyni. Á sýningunni fá gestir að sjá frumgerðir af fatnaði úr annarsflokks æðardúni sem verður framleiddur hérlendis í framhaldi sýningar ef lögum um gæðamat fæst breytt.
Annarsflokks stendur til 15. maí í Ásmundarsal.
Samfellur
Samfellur er sýning Pétur Geirs Magnússonar þar sem hann sýnir nýja seríu lágmynda sem unnar voru við Álftavatn.
Samfellur er einskonar leiðangur milli málverks og skúlptúrs, listar og hönnunar, handverks og nútímalegrar tækni. Verkin kanna samband ljóss og skugga og hvernig ljósbrigði hafa áhrif á liti og form. Þema sýningarinnar er samfellur, en með nýju föðurhlutverki hefur Pétur Geir fengist við nýjar áskoranir sem hann upplifir að endurspeglist í lágmyndunum.
Samfellur stendur til 15. maí í Ámundarsal.
1+1+1 / Hugdetta
1+1+1 er tilraunakennd hönnun þriggja hönnunarhúsa – Hugdettu frá Íslandi, Petra Lilju frá Svíþjóð og Aalto+Aalto frá Finnlandi.
Saman skoða þau og endurhugsa hluti með þeirri aðferð að hver vinnustofa hannar hlut sem samanstendur af þremur aðskildum pörtum sem síðar púslast saman við hönnun hinna landanna. Hönnunin verður ófyrirsjáanleg og óvanaleg þar sem útkoman kemur bæði hönnuðunum og áhorfandanum á óvart.
1+1+1 / Hugdetta stendur til 5. maí
skart:gripur
Skart hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda. Þörfin til að skreyta líkama og klæði með skarti er frumstæð og hefur djúpar rætur í menningarsögu allra þjóða. Skartgripir gegna stöðu tungumáls í menningu okkar og samfélagi. Þeir eru frásögn, tákna stöðu, miðla persónuleika og senda skilaboð.
Þá endurspeglar sýningin margbreytileika í efnistökum, aðferðum og nálgun í skartgripagerð hér á landi. Gripirnir á sýningunni eru eftir fjölbreyttan hóp gullsmiða, skartgripahönnuða og listamanna sem varpa ljósi á skartið í samtíma okkar.
skart:gripur stendur til 26. maí í Hafnarborg.
Möl, Steinar & Grjót
Listasýning í kjallara Fischer. Samstarfsverkefni Fischersund og listamannsins Jóns Alberts.
Á sýningunni í kjallara Fischersunds verður innsetning með eftirmynd af vinnuborðinu sem Jón vann við í París og heilu stakkarnir af bókum frá Bókabúð Steinars. Þar mun hann hafast við yfir sýningartímann og vera með auglýsta gjörninga þar sem hann býr til sínar eigin bækur.
Fischersund gefur út ilm sem er innblásinn af hlýjum faðmi gamalla bóka, söknuði og keðjureykingum.
Möl, Steinar & Grjót stendur til 31. maí í Fischersund.
Baráttan um gullið
Listasafn Íslands sýnir myndverk og smíðisgripi eftir Finn Jónsson (1892–1993) og Jóhannes Jóhannesson (1921–1998). Báðir lærðu þeir gull- og silfursmíði áður en þeir lögðu myndlistina fyrir sig. Gullsmiðir í Félagi íslenskra gullsmiða munu á sama tíma tefla fram nýrri smíði sem hver og einn gullsmiður tengir listaverki á sýningunni Viðnám í Safnahúsinu við Hverfisgötu.
Baráttan um gullið stendur til 9. júní í Safnahúsinu.
Eiginleikar
Á sýningunni er leikið með ólíka eiginleika efniviða, forma og hluta.
Hlutir innan heimilisins hafa ákveðna eiginleika. Séu þeir fjöldaframleiddir eru eiginleikar þeirra búnir takmörkum þeim sem vélarnar sem framleiða þá hafa. Séu þeir handgerðir eru þeir háðir því valdi sem hendur og hugur hafa yfir efninu sem þeir eru búnir til úr. Á sýningunni mætast ólíkir eiginleikar. Handverk og stafræn tækni, list og hönnun, leir og strá, viður og ull.
Eiginleikar stendur til 17. maí í Listasal Mosfellsbæjar.
Eldblóm, hvernig dans varð að vöruhönnun
Hugmyndir kvikna og taka flugið, springa út í allar áttir og falla í mismunandi jarðveg.
Nýjasta viðbótin við Eldblómaverkefnið er ilmur, drykkjarföng og matvörur auk fjölbreyttrar vöru- og upplifunarhönnunar. Þannig svífur Sigga Soffía á milli listforma og hönnunargreina ásamt samstarfsfólki úr ýmsum geirum.
Safnið á röngunni er hugsað sem rými til rannsókna. Hér gefst tækifæri til að líta yfir farinn veg, skoða hugmyndir sem hafa orðið að veruleika, þær sem enn bíða og tækifærin fram undan.
Sýningin stendur til 17. júní í Hönnunarsafni Íslands.
Gullsmiður í vinnustofudvöl - Marta Staworowska
Marta er lærður landslagsarkitekt og gullsmiður. Áður en hún flutti til Íslands, fyrir 6 árum, starfaði hún fyrir pólska herinn og var staðsett í Afganistan.
Víravirkið er rauði þráðurinn í verkum Mörtu. Aðferðin er æva gömul og má rekja meðal annars til forn Egypta, Grikkja og Rómverja löngu fyrir Krist. Víravirki er einnig hluti af íslenska þjóðbúningnum. Mótífin sem gjarnan er unnið með í víravirki eru blóm og plöntur og tengjast þannig bakgrunni Mörtu í landslagsarkitektúr. Hönnuðir í dag halda áfram að finna þessu fínlega handverki farveg í nútíma skartgripum.
Sýningin stendur til 5. maí í Hönnunarsafni Íslands.
Vaxtaverkir
Vaxtaverkir er upplifunarsýning með áherslu á gagnvirka fræðslu, ímyndunarafl og leikgleði. Gestir fá innsýn í veröld grunnskólabarna í Reykjavík á árabilinu 1898-1974.
Í dag þykir flestum á Íslandi sjálfsagt að öll börn gangi í skóla og finnst jafnvel erfitt að ímynda sér annan veruleika. Í rauninni er þó ekki svo langt síðan að menntun taldist til lögbundinna mannréttinda allra barna. Hvernig gerðist það eiginlega? Hönnun sýningarinnar er í höndum hönnunarteymisins ÞYKJÓ. Allt starf þeirra miðar að því að örva ímyndunarafl og kveikja forvitni og sköpunarkraft barna.
Vaxtaverkir stendur næstu þrjú árin í Árbæjarsafni.
Samband/Connection
Í tilefni af HönnunarMars 2024 hefur sýningin Samband/Connection verið sett upp í töskusalnum á Keflavíkurflugvelli.
Sýningin sýnir vörur eftir níu íslenska hönnuði sem eiga það sameiginlegt að hafa hannað vörur sem eru þróaðar, framleiddar og seldar í Skandinavíu. Sýnd eru húsgögn og vörur sem endurspegla íslenska hönnun og sambandið á milli íslenska og skandinavíska hönnunarsamfélagsins.
Sýningin var framleidd af Epal í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og Íslandsstofu í tilefni af hönnunarvikunni 3 Days of Design í Kaupmannahöfn sumarið 2023 þar sem hún var sett upp í sendiráði Íslands í Danmörku.
Sýningin stendur til 13. maí á Keflavíkurflugvelli.
Heima er best
Vefnaðarsýning Félags íslenskra vefnaðarkennara og vefara.
Í tilefni af 50 ára afmæli félagsins er haldin samsýning á verkum félagsmanna í Gallerí Fold, Rauðarárstíg 12. Þema sýningarinnar er "heimilið" í léttum vorlitum. Félagsmenn sýna ný og fjölbreytt verk ofin á hefðbundna vefstóla jafnt sem tölvustýrðan vefstól.
Sýningin stendur til 18. maí í Gallerí Fold.
Matti og Maurún - Hulinn heimur íslenskra maura
Sýning og útgáfa myndlýstrar barnabókar um íslenska maura, Matti og Maurún - Hulinn heimur íslenskra maura.
Á sýningunni skoðum við furðuverk mauraríkisins, rýnum í myndheiminn sem Laufey Jónsdóttir skapaði fyrir bókina og sjáum íslenska maura stíga á stokk í iðandi maurabúi. Rithöfundurinn og líffræðingurinn Marco Mancini hefur rannsakað maura á Íslandi frá árinu 2019 og deilt undrum mauraheimsins í fjölmiðlum, á vefsíðunni „Maurar á Íslandi” og nú í þessari fallega myndskreyttu bók.
Sýningin stendur til 8. maí í Epal Gallerí.