Landslag hringrásar - Fólk á 3daysofdesign
Íslenska hönnunarfyrirtækið FÓLK tekur þátt í dönsku hönnunarhátíðinni 3daysofdesign með sýningunni Landslag hringrásar, sem vísar í kjarna fyrirtækisins sem einblínir á sjálfbæra og hringrásarvæna hönnun.
Á hátíðinni í ár kafar FÓLK dýpra í endurnýtingu hráefna og gerir tilraunir með hvernig má nýta úrgangsefni í samstarfi við hönnuði og framleiðendur. Markmið sýningarinnar er að veita innblástur og sýna hvernig hönnun getur umbreytt rusli í fegurð með snjallri og áhrifaríkri hönnun.
Viðburðir sem verða á dagskrá á sýningunni:
12. júní - Framtíðarheimili: Hvernig getur hönnun veitt innblástur fyrir sjálfbæran og hringrásarvænan lífsstíl? Samtal milli Rögnu Söru Jónsdóttur, stofnanda og eiganda FÓLK við Kaave Pour, frumkvöðul og annan eiganda SPACE10 leitt af Erik Rimmer, ritstjóra BoBedre.
12. júní - Opnunarhóf
14. júní - Bráðum verður ekkert rusl! Samtal milli Studio Navet frá Svíþjóð og Fléttu um möguleika hönnunar í verðmætasköpun úrgangsefna.
FÓLK unnu flokkinn Vara ársins fyrir Loftpúðann ásamt Fléttu á Hönnunarverðlaunum Íslands í fyrra ásamt því að hafa áður hlotið viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun á verðlaununum.
Danska hönnunarhátíðin 3daysofdesign fer fram dagana 12. - 14. júní í Kaupmannahöfn. Yfir 250 þátttakendur taka þátt í hátíðinni í ár með sýningum og viðburðum víðsvegar um borgina. 3daysofdesign fór fyrst fram árið 2013 og hefur vaxið og dafnað í gegnum árin og er nú ein sú stærsta í Skandinavíu.