Á topp 10 lista yfir byggingar ársins að mati Design Boom
Tvö íslensk heimili eru á topp 10 lista yfir byggingar ársins að mati hönnunartímaritsins Design Boom. Árið 2021 einkenndist af endurhugsun hins hefbundna heimilis að mati tímaritsins sem setur Hlöðuberg eftir Studio Bua og sumarhús á Þingvöllum eftir KRADS arkitekta á topplista ársins.
Tímaritið segir listann í ár endurspegla nýja þörf manneskjunnar fyrir vinnurými á heimili, meðvitaðar endurbætur og þörfina fyrir tengslum við náttúruna. „Þessar byggingar brjóta upp hefðbundnar hugmyndir um heimili“
Hlöðuberg artist´s studio eftir þau Mark Smyth, Sigrún Sumarliðadóttir og Giambattista Zaccariotto hjá Studio Bua var klárað vorið 2021 og er staðsett við Skarðsströnd á Vesturlandi og reist á grunni niðurníddrar hlöðu.
Sumarhús á Þingvöllum eftir KRADS arkitekta komst einnig á lista en húsið hefur vakið eftirtekt hönnunarmiðla víðsvegar um heiminn upp á síðkastið. Ekki síst vegna aðlögun byggingarinnar að landslagi í kring og samtalinu við náttúruna.