Sumarhús á Þingvöllum frá KRADS arkitektum á forsíðu Bo Bedre

8. janúar 2021

Í janúar útgáfu danska hönnunartímaritsins BoBedre prýðir nýtt verkefni eftir KRADS arkitekta forsíðu blaðsins. Um er að ræða sumarhús við Þingvallavatn og hefur byggingin og aðlögun þess að landslagi þessa fallega staðar þegar vakið töluverða athygli í erlendum fjölmiðlum. Húsið er byggt fyrir tónlistarfólkið Tinu Dickow og Helga Hrafn Jónsson.

Húsið stendur í þétt gróinni brekku sem hallar niður í norðurátt að Þingvallavatni.

Byggingin er mótuð af umhverfi sínu á marga vegu. Timburhúsið er reist á þremur steinsteyptum gólfplötum sem liggja í mismunandi hæðum og fylgja landhalla lóðarinnar. Torflagðir þakfletir halla í tvær átt áttir, með og á móti halla landsins, og renna saman við brekkuna til suðurs. Staðsetning byggingarinnar var vandlega valin til að fella hana sem best að umhverfi sínu, raska sem minnst þéttvöxnum trjágróðri og ramma inn ákveðin sjónarhorn að landslagi. Norðuhlið byggingarinnar lyftir sér varlega yfir landið og lágvaxnari trjágróður brekkunnar til að ramma inn útsýni úr alrými yfir Þingvallavatn, í átt að Skjaldbreiði. Opnun úr alrými út á skjólgóða suð-vestur verönd rammar inn Jórukleif og Hátind í suð-vestri um leið og hún opnar fyrir útsýni frá palli að Þingvallavatni, í gegnum bygginguna. Gluggar á vesturhlið, við sófahorn hjá barnaherbergjum annars vegar og við stofuborð alrýmis hins vegar, ramma inn Litla Sandfell. 

Burtséð frá veröndinni er næsta umhverfi byggingarinnar svo þétt gróið að það er nánast ekki manngengt. Að varðveita landið og gróðurinn var ein af megináherslunum í hönnun byggingarinnar. Grasi vaxnir þakfletir byggingarinnar eru hins vegar hugsaðir sem útisvæði, aðgengilegt frá svefn- & leiklofti og frá suðurhlið byggingarinnar þar sem þakflötur bátaskýlis rennur saman við hlíðina.

Frá þakflötum fæst panóramískt útsýni yfir Þingvallavatn og að fjallahringnum sem umlykur Þingvallasveitina.

Hér má skoða myndir frá ljósmyndaranum Marino Thorlacius

Verkefni: Sumarhús við Þingvallavatn

Verkkaupi: Tina Dickow og Helgi Hrafn Jónsson

Stærðir: Meginhús: 145 m2, bátaskýli: 26m2, lóð: 1000 m2

Staða: Byggingu lokið 2020

Arkitekt: KRADS

Burðarþol og lagnir: Emil Þór Guðmundsson

Megin verktaki: Smíðandi ehf.

Séstök smíðavinna og innri frágangur: Helgi Hrafn Jónsson, Jón Árni Þórisson, Christian Danielsen.

Ljósmyndir: Marino Thorlacius

Dagsetning
8. janúar 2021
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir
Ljósmyndari
Marino Thorlacius

Tögg

  • Greinar
  • Arkitektúr
  • Innanhússarkitektúr
  • Landslagsarkitektúr