Basalt arkitektar hljóta fyrstu verðlaun í samkeppni um nýjan miðborgarleikskóla og fjölskyldumiðstöð
Verðlaunaafhending fór fram í dag í samkeppni um nýjan leikskóla og fjölskyldumiðstöð í miðbæ Reykjavíkur. Fyrstu verðlaun hlutu Basalt arkitektar og Landslag fyrir tillögu þar sem byggingarform er fágað og látlaust með ávölum hornum og umlukið málmmöskva, sem skapar áhugavert spil skugga, sjónrænnar dýptar, lokunar og gagnsæis.
Reykjavíkurborg í samstarfi við Arkitektafélag Íslands efndi í sumar til opinnar hönnunar- og framkvæmdasamkeppni um nýjan miðborgarleikskóla og fjölskyldumiðstöð á suðvesturhluta reits sem afmarkast af Grettisgötu, Njálsgötu, Rauðarárstíg og Snorrabraut, þar sem Njálsgöturóló hefur verið um árabil.
Undirbúningur að byggingu á nýjum Miðborgarleikskóla á Njálsgöturóló hófst árið 2018 þegar stýrihópurinn Brúum bilið var stofnaður. Hópnum var falið að finna leiðir til að brúa bil á milli fæðingarorlofs og leikskóla og fjölga leikskólaplássum í borginni. Gert er ráð fyrir að nýr Miðborgarleikskóli rísi árið 2022 og rúmi um 116 börn á aldrinum eins árs til sex ára. Einnig verður starfrækt fjölskyldumiðstöð í byggingunni. Fjölmargir arkitektar og hönnuðir hafa sýnt þessu verkefni áhuga.og voru innsendar tillögur 29 talsins og komu víðsvegar að úr heiminum. Keppendur settu fram hugmyndir sínar í samræmi við keppnislýsingu, s.s. byggingarform, innri og ytri tengingar, stærðir og umhverfi. Í leikskólanum Miðborg hefur starfsfólk þróað flæði í leik og námi barna. Það felur í sér að börnin fái sjálf að velja sér viðfangsefni og flæða áfram í leiknum án leiðsagnar og kennslu. Sjálfræði skipar þar stóran sess því börnin fá að vera leiðtogar í eigin námi.
Neðar í fréttinni má skoða allar tillögur sem bárust.
Eftirtalin atriði vógu þungt við mat dómnefndar á samkeppnistillögum:
• Ný sýn: Væntingar eru til þess að hönnun skólans og fjölskyldumiðstöðvarinnar marki nýja sýn í hönnun hvað varðar vellíðan, virkni og heilbrigði þeirra sem þar eru við leik og störf.
• Byggt fyrir börnin: Skólinn og umhverfi hans sé hannaður með börnin að leiðarljósi og uppfylli sem best væntingar til leiks, náms, velferðar og aukins þroska barna. Börn eiga að geta farið á svæði sem veitir þeim öryggistilfinningu og ró. Umhverfið inni og úti á að bjóða upp á áskorun í hreyfingu.
• Sveigjanleiki og fjölbreytni: Húsnæðið þarf að bjóða upp á sveigjanleika í rýmum sem styður við frelsi og val barna til athafna. Í leikskólanum á að vera hægt að leika og starfa í stórum jafnt og litlum hópum.
• Byggingarlist: Tillagan feli í sér vandaða byggingarlist sem komi til móts við umhverfisþætti án þess þó að fórna aðgengi eða öryggi notenda. Heildaryfirbragð sé hlýlegt og skipulag til fyrirmyndar. Aðlögun tillögunnar að umhverfi og staðaranda verði markviss.
• Útisvæðið, umhverfi, lóð og leiksvæði: Leikskólalóðin á að vera félagslegur og námslegur vettvangur og þarf að geta gegnt hlutverki hverfisvallar utan starfstíma leikskólans. Samspil útisvæða og byggingar sé gott og taki mið af umhverfisþáttum.
• Sjálfbærni: Umhverfissjónarmið og vistvæn hönnun verði höfð að leiðarljósi við hönnun og efnisval.
• Kostnaðaraðgát: Viðhöfð verði kostnaðaraðgát við gerð tillögunnar, jafnt í rýmisnýtingu, efnisvali, byggingaraðferðum og rekstri byggingarinnar.
Dómnefnd var einhuga um eftirfarandi niðurstöðu:
Fyrstu verðlaun fá Basalt arkitektar og Landslag
„Tillagan er einstaklega vel unnin og svarar mjög vel áherslum í forsögn og þörfum starfseminnar. Byggingarform er fágað og látlaust með ávölum hornum og umlukið málmöskva, sem skapar áhugavert spil skugga, sjónrænnar dýptar, lokunar og gagnsæis. Litaval er lágstemmt en þó líflegt. Byggingin fer einstaklega vel í götumyndinni. Innri rýmismyndun byggingarinnar skapar áhugavert mótvægi við ytri ásýnd, en rifjur úr krosslímdu timbri gefa rýminu allt í senn hlýleika, hrynjanda og uppbrot. Þessar andstæður gefa byggingunni sérstöðu, á áhrifaríkan hátt þegar horft er inn frá leikskólalóð og þakgörðum. Byggingin er á þremur hæðum. Aðalinngangur er úr garði, sem tengir á áhugaverðan hátt lóð og leikskóla. Komið er inn á miðjuás, rúmgott sameiginlegt fjölnotasvæði, sem er opið inn í matsal og upp á aðra hæð. Heimastofur eru meðfram norður- og suðurhliðum og er beinn aðgangur úr þeim út í garð. Inngangur starfsfólks og fjölskyldumiðstöðvar er við Austurbæjarbíó, en þjónustuinngangur er frá Grettisgötu. Á annarri hæð eru heimastofur elstu barnanna ásamt aðstöðu starfsfólks. Úr sameiginlegu rými á annarri hæð og úr heimastofunum á miðhæð er aðgengi út í þakgarð. Frá þakgarði er gott aðgengi að leikskólalóð um breiðar tröppur og rennibraut. Fjölskyldumiðstöð á þriðju hæð tengist góðum þakgarði sem gefur börnum og foreldrum tækifæri til að aðlagast í rólegheitum í útiveru. Þar er ræktunarsvæði og góð yfirsýn yfir útileiksvæði á lóðinni. Auðvelt er að breyta fjölskyldumiðstöð í heimasvæði ef þörf krefur,“ segir meðal annars í umsögn. Sjá nánar hér.
2.-3. verðlaun.
THG arkitektar og Landform. „Veggurinn sem umlykur lóðina og er einkennandi fyrir svæðið er meginkjarni tillögunnar ásamt reynitrénu í miðju hússins. Fáguð tillaga sem fer einstaklega vel í götumyndinni. Sjá nánar hér.
Andrúm arkitektar ehf. „Byggingin myndar nokkuð samfelldan tveggja hæða flöt með ávölum hornum gagnvart Njálsgötu en stallast til norðurs og austurs. Tillagan er vel útfærð og svarar nokkuð vel forsögn. Aðalinngangur er frá garði, þjónustuinngangur frá Grettisgötu og aðkoma að fjölskyldumiðstöð er við Austurbæjarbíó,“ segir meðal annars í umsögn. Sjá nánar hér.
Verðlaun fyrir innkaup fengu
YRKI arkitektar „Tillöguhöfundar lifa sig inn í hugarheim barnsins með leiftrandi gleði og forvitni og lýsa sérstaklega vel degi barnsins í skólanum,“ segir meðal annars í umsögn. Sjá nánar hér.
Huldajons + Sa Studio. „Fjölnotasalur tengist stiga sem fellur vel að rýminu og býður upp á að börnin setjist niður og njóti umhverfisins. Stiginn er mjög vel útfærður og hvetur til leiks og samveru,“ segir meðal annars í umsögn. Sjá nánar hér.
Dómnefnd skipuðu:
Tilnefnd af útbjóðanda:
- Rúnar Gunnarsson, fyrrverandi deildarstjóri á Umhverfis- og skipulagssviði, arkitekt FAÍ, formaður
- Helgi Grímsson, sviðsstjóri Skóla- og frístundasviðs
- Ásdís Olga Sigurðardóttir, verkefnastjóri á fagskrifstofu leikskólamála á Skóla- og frístundasviði
Tilnefnd af Arkitektafélagi Íslands:
- Björn Guðbrandsson, arkitekt FAÍ
- Katla Maríudóttir, arkitekt FAÍ Ritari dómnefndar:
Ritari dómnefndar:
- Anna María Benediktsdóttir, verkefnisstjóri skrifstofu framkvæmda og viðhalds á Umhverfis- og skipulagssviði, arkitekt FAÍ
Ráðgjafar dómnefndar:
Arna Björk Birgisdóttir, deildarstjóri á Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða
Ámundi V. Brynjólfsson, skrifstofustjóri skrifstofu framkvæmda og viðhalds á Umhverfis- og skipulagssviði
Elín Guðrún Pálsdóttir, verkefnastjóri og leikskólakennari
Guðrún Birna Sigmarsdóttir, landslagsarkitekt skrifstofu framkvæmda og viðhalds á Umhverfis- og skipulagssviði
Hildur Gunnarsdóttir, arkitekt hjá skipulagsfulltrúa á Umhverfis- og skipulagssviði
Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, skrifstofustjóri fagskrifstofu leikskóla á Skóla- og frístundasviði
Kristín Einarsdóttir, leikskólastjóri, Miðborg
Trúnaðarmaður dómnefndar, tilnefndur af Arkitektafélagi Íslands: Helga Guðjónsdóttir.