Leggur sitt af mörkum til að skapa vistvænt ferli með nýrri fatalínu
Sigrún Halla Unnarsdóttir fatahönnuður og jógakennari, frumsýnir nýja fatalínu undir merkinu AD sem vinnur með nýja íslenska lambsullarbandið þróað af VARMA og Ístex. Merkið er nú fáanlegt í nýrri pop up verslun VARMA á Skólavörðustíg fyrir jólin.
Sigrún Halla hefur síðastliðin ár verið með annan fótinn í prjónaverksmiðju VARMA við sníðagerð og vöruþróun fyrir viðskiptavini verksmiðjunnar og í kjölfarið fór hún að hanna og framleiða flíkur undir merkinu AD.
Hún nýtir meðal annars ónýtt hráefni sem falla til í verksmiðjunni en nú síðast vinnur merkið með nýja íslenska lambsullarbandið þróað af VARMA og Ístex. AD vill leggja sitt af mörkum við að skapa vistvænt ferli er viðkemur framleiðslu, upplifun og notkun á fatnaði. AD vill einnig vekja athygli á þeim verðmætum sem felast í prjónaverksmiðju VARMA í hinum hverfula heimi fataframleiðslu á Íslandi, ekki síst í sögu- og menningarlegu samhengi.
Kostir þess að klæðast náttúrulegum efnum eru margir samkvæmt tilkynningu frá AD. Flíkur úr náttúrulegum hráefnum eru með "náttúrulega" tíðni. Atómin sem búa til allt í kringum okkur eru alltaf að titra á ákveðinni tíðni. Frá hverju einasta líffæri í líkamanum þínum yfir í stólinn sem þú situr á, allt ómar í ákveðinni tíðni. Hærri tíðni fylgir betri heilsa - en það er hugmyndafræði sem hefur verið samþykkt í mörgþúsund ár í austurlenskum læknavísindum en er nýrri fyrir okkur í vestræna heiminum. Þetta er líffræði sem við erum að læra meira og meira um eftir því sem tæknin til þess að mæla tíðni verður betri. Sum okkar hafa heyrt þetta áður í gegnum jógaiðkun, að náttúrulegar trefjar hjálpi til við að eyða burtu stíflum í orkuflæði líkamans.
Næsta verkefni AD er að þróa fyrsta íslenska hamp bandið ætlað til framleiðslu á textíl. Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með bendum við á instagram reikning AD hér.
AD fæst í pop up verslun VARMA á Skólavörðustíg 4, versluninni Sýnishorn í Sundaborg 1 og á vefsíðunni www.synishorn.is.