Pappír á pappír frá Reykjavík Letterpress

15. desember 2020

Reykjavík Letterpress fagnar 10 ára afmæli með nýrri vörulínu sem nefnist Pappír á pappír og endurspeglar þá staðreynd að grafísku hönnuðirnir og eigendur Letterpress Ólöf Birna Garðardóttir og Birna Einarsdóttir lifa og hrærast í pappír alla daga.

Línan samanstendur af gjafapappír, merkimiðum, tækifæriskortum, pokum og fleiru. Allt innblásið af pappír. Ljósmyndir af pappírsbunkum flétta saman form og áferð og litaskalinn fer í ýmsar áttir allt frá mildum grádröppuðum yfir í glaðlegri rauðbleika og orange tóna. Markmiðið var að gera heilsárslínu sem væri auðvelt að gera jólalega og er sérstaklega gaman að pakka inn með gjafapappírnum sem er með ólíkar hliðar, sama munstur en sitthvor litaskalinn.

Jólin fá að fljóta með, jólamerkimiðar og svo jólaservíettur sem falla að heildinni. Ólíkum prentaðferðum blandað saman, offset prentaðir grunnar og letterpress þrykkið sem gerir allt ögn fallegra og heildarmyndin verður lífleg að sögn Ólafar Birnu.

Vörulínan fæst í Epal í Skeifunni og í netbúð letterpress.is.

Dagsetning
15. desember 2020
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Grafísk hönnun