Tilraunaeldhús og leyniklúbbur Lady Brewery
Kvenrekna brugghúsið Lady Brewery hefur sett í gang söfnun á Karolina fund. Markmiðið er að setja upp tilraunaeldhús þar sem gerðar verða tilraunir með bjórgerð og íslenska náttúru. Lady Brewery gerði meðal annars sérstakan bjór fyrir HönnunarMars 2019, Er þetta hönnun? og hlutu annað sætið í Grapevine Hönnunarverðlaununum fyrir vöru ársins 2019.
Einnig verður settur á laggirnar “Leyniklúbb Lady”, þar sem haldnir verða reglulegir viðburði og upplifanir. Í boði eru meðal annars einstakar upplifanir, matarbjórboð, dansnámskeið og sérstök tilrauna smökkun, svo eitthvað sé nefnt.
Lady Brewery er kvenrekið kraft brugghús, með höfuðstöðvar í Reykjavík en þar sem brugghúsið er farands brugghús þá er framleiðsla víðsvegar um landið. Þórey Björk Halldórsdóttir stofnaði Lady Brewery í september 2017 og koma þær Þórey og Sigríður Ásgeirsdóttir, úr hönnun, myndlist og matargeiranum og hafa unnið með sterka ímynd og talað fyrir því að bjór sé fyrir konur jafnt sem karlmenn, að hægt sé að hanna fallega og góða bjóra og bjórtengda hluti, upplifanir og viðburði við allskyns tækifæri.
Að þeirra sögn verður tilraunaeldhúsið hjartað í starfseminni en þar verða bruggaðar einstakar lagnir og tilraunabjórar (sem bjóðast Leyniklúbbsfélögum) en tilraunaeldhúsið mun einnig leika stórt hlutverk í verkefninu "Rannsókn á íslenskri náttúru í bjórgerð" sem Lady Brewery er með í undirbúningi.
Leyniklúbbsfélagar fá svo aðgang að öllu því sem brugghúsið gerir, auk þess að geta komið í reglulega smökkunar tíma þar sem klúbbfélagar fá að hafa skoðun á bjórunum, ferlinu og fleiru skemmtilegu, áður en þeir fara í framleiðslu. Lady Brewery er þessa stundina að flytja í nýtt húsnæði á Grandanum í Reykjavík, þar sem verða höfuðstöðvar og prent studíó fyrir alla hönnun Lady Brewery.
Þessa stundina stendur Lady Brewery fyrir Karolinafund söfnun, sem er mikilvægt skref í átt að því að geta gert þessi verkefni að veruleika. Þar er boðið uppá skemmtilegar jólagjafir fyrir einstaklinga eins og leyniklúbb, Matar,-bjórboð og dansnámskeið. Leyniklúbburinn er gjöf sem gefur í hverjum mánuði og boðið uppá 3 mánuði eða 12 mánuði. Söfnunin stendur til 22. desember.