Sex vikur frá hugmynd að opnun verslunarinnar Mikado
Mikado er ný hönnunarverslun og sköpunarhús að Hverfisgötu 50 í Reykjavík undir áhrifum frá Íslandi, Japan og Skandinavíu. Eigendur eru grafísku hönnuðirnir Aron Freyr Heimisson og Einar Guðmundsson.
Falleg hönnun, einföld form, skrautmunir og blóm prýða framboð Mikado og Pastel blómastúdíó sem deilir með þeim húsnæði.
Aron Freyr og Einar eru nýfluttir heim eftir tveggja ára dvöl í Lissabon í Portúgal. Hugmynd af verslun hafði lengi verið að þróast í huga þeirra og draumur þeirra að opna sína eigin. Hugmyndinni var kastað fram á Dalvík í lok október og foreldrar Arons vildu vera með og þá var ekki aftur snúið.
„Í byrjun nóvember vorum við með hugmynd, við fórum á fullt, stofnuðum fyrirtæki, sérvöldum birgja, pöntuðum vörur og fengum svo húsnæði í lok nóvember. Þessar sex vikur hafa því verið vel nýttar og við erum ótrúlega stoltir af að geta opnað 10. desember og vefverslunina daginn eftir. Mikið af vörum eru þó enn á leiðinni til okkar svo við munum auka vöruúrvalið næstu daga og mánuði.” segir Aron Freyr framkvæmdastjóri Mikado.
Aron Freyr og Einar eru grafískir hönnuðir og hafa þeir unnið við það síðustu ár á Íslandi og í Portúgal. Þeir hönnuðu rýmið og innréttingarnar. Freyr Antonsson meðeigandi og bróðir hans smíðuðu innréttingarnar, fjölskylda Einars hjálpaði við uppsetningu og útkoman er Mikado, verslun sem eykur við flóruna í miðborg Reykjavíkur.
„Við Aron erum yfirleitt mjög sammála um hvað okkur þykir fallegt og það er frábært að fá tækifæri til að hanna alla grafík og útlit sjálfir og sjá það verða að veruleika. Við viljum að vörurnar fái að njóta sín, skapa afslappað andrúmsloft og að fólk fái innblástur af þeim fallegu vörum sem við bjóðum uppá.” segir Einar.