Árið 2020 í hönnun og arkitektúr
Hið herrans ár 2020 verður lengi í minnum haft. Árið var lærdómsríkt, kenndi okkur að hugsa í lausnum, leita nýrra leiða og sýndi hvað skiptir raunverulega máli. Hér lítum við yfir árið í starfssemi Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs - hvað bar hæst á þessu fordæmalausa ári?
Hönnunarmiðstöð Íslands varð Miðstöð hönnunar og arkitektúrs
Sumarið 2020 kynnti Miðstöðin nýtt einkenni og áherslur. Miðstöð hönnunar og arkitektúrs mun í auknum mæli leggja áherslu á hönnunardrifna nýsköpun sem stuðlar að verðmætasköpun og betra samfélagi. Markmiðið er að íslensk fyrirtæki og hið opinbera telji sjálfsagt að nýta sér hönnun sem aðferð og tæki í nýsköpun til að ná fram breytingum í þágu lífsgæða, umhverfis og atvinnulífs.
Hönnunarmiðstöð Íslands hefur verið starfrækt í áratug og lagt áherslu á mikilvægi hönnunar og arkitektúrs fyrir samfélagið, menningu og atvinnu- og efnahagslíf. Á þessum tímamótum taldi stjórn tímabært að skerpa á hlutverki miðstöðvarinnar og um leið bæta arkitektúr inn í nafnið sem fellur betur að alþjóðlegum áherslum.
Einkennið er hannað af Studio Studio, grafísku hönnuðunum Arnari Freyr Guðmundssyni og Birnu Geirfinnsdóttur en letrið er hannað af íslensku letursmiðjunni Universal Thirst.
Ný heimasíða í loftið
Samhliða nýju einkenni fór ný heimasíða Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs í loftið rétt fyrir HönnunarMars í júní. Síðan er með öflugri frétta- og upplýsingaveitu fyrir fagfólk, áhugafólk um hönnun og arkitektúr og almenning ásamt upplýsingasíðum og fróðleik og tengingum.
Vefurinn var þróaður og hannaður af Ueno, Kodo og hönnunarstofunni Studio Studio.
Könnun um áhrif Covid-19, - alvarlegar afleiðingar á hönnun og arkitektúr
Heimsfaraldur setti sitt mark á störf hönnuða og arkitekta og starfsemi Miðstöðvarinnar á árinu. Í apríl var send út könnun til að varpa ljósi á áhrif Covid-19 á starfsemi á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi. 483 svör bárust frá stjórnendum, launafólki og sjálfstætt starfandi hönnuðum og arkitektum úr fjölbreytilegum greinum.
Af niðurstöðunum er ljóst að ástandið hafði haft alvarlegar afleiðingar strax í apríl
50% hönnuða og arkitekta höfðu misst helming til allar tekjur sínar
75% fyrirtækja fundu fyrir verulegri lækkun á tekjum
70% verkefna hafði verið frestað, hætt eða dregist verulega saman.
Hér er hægt að lesa nánar um könnunina.
HönnunarMars 2020 fór fram í júní
HönnunarMars var valin borgarhátíð Reykjavíkurborgar til þriggja ára 2020-2022. Hátíðin 2020 átti að fara fram í lok marsmánaðar eins og undanfarin ellefu ár en var frestað til 24.-28. júní vegna heimsfaraldurs Covid-19. Ákvörðunin var tekin í samráði við þátttakendur og samstarfsaðila HönnunarMars. Um miðbik júní komu þær jákvæðu fréttir að hátíðin gæti raunverulega farið fram, en með töluvert breyttu sniði því stórir og mannmargir viðburðir sem hafa verið fastir liðir hátíðarinnar urðu að bíða til ársins 2021.
HönnunarMars fór fram í tólfta sinn dagana 24.- 28. júní 2020 þar sem yfir 80 sýningar og 100 viðburðir voru á dagskrá. Samskiptahöftum var að létta og fjöldi manns sótti hátiðina þrátt fyrir óvissutíma í samfélaginu og mikill meðbyr var með hátíðinni. HönnunarMars boðar nýjungar og lausnir og veitir um leið innblástur og eflir bjartsýni. Þá skapast á HönnunarMars tækifæri til að vekja athygli á mikilvægi skapandi hugsunar á krefjandi tímum.
Studio 2020 - rafræn miðlun hönnunar og hátíðar
Studio 2020 var tilraunavettvangur HönnunarMars 2020, þar sem efni hátíðarinnar var miðlað á rafrænu formi meðan á henni stóð og í kjölfar hennar. Verkefnið var svar við að ráðstefnunni DesignTalks var frestað enda mikil þörf fyrir hönnunartengda umræðu á vegum hátíðarinnar á þessum tímapunkti. Markmiðið var að veita innsýn í vinnu hönnuða, viðfangsefni og hugmyndir um framtíðinam auk þess að hvetja til breiðs samtals um hönnun og arkitektúr.
Stjórnendur og skaparar voru Hlín Helga Guðlaugsdóttir, stjórnandi DesignTalks, Garðar Eyjólfsson, fagstjóri meistaranáms í hönnun við Listaháskóla Íslands, María Kristín Jónsdóttir, ritstjóri HA, Steinn Einar Jónsson, upplifunarhönnuður og Einar Egils, kvikmyndagerðarmaður, með stuðningi Íslandsstofu.
Daglegir spjallþættir voru sendir út í beinu streymi yfir hátíðina í samstarfi við Vísi.is og unnir þættir á ensku sem m.a. voru frumsýndir á Dutch Design Week í október á þessu ári.
Miðstöð hönnunar og arkitektúrs flutti í Grósku
Miðstöð hönnunar og arkitektúrs hefur flutt starfssemi sína í Grósku, nýtt frumkvöðla - og sprotasetur Vísindagarða Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni.
Miðstöðin verður með starfsemi sína í nýju frumkvöðla- og sprotasetri sem opnar á fyrstu hæð hússins, í sambýli við Icelandic Startups, Ferðaklasann, Auðnu tæknitorg og Vísindagarða Háskóla Íslands. Arkitektar hússins eru Andrúm arkitektar í samstarfi við DKPitt arkitekta.
Við hlökkum til að hefja starfssemi þar á nýju ári
Hönnunarsjóður
Á árinu 2020 bárust sjóðnum samtals 524 umsóknir um 987 milljónir og 95 verkefni hlutu 90 milljónir króna i styrki.
Í hefðbundnar úthlutanir ársins bárust 248 umsóknir um almenna styrki að upphæð um 467 m.kr. Sjóðurinn veitti alls 46 verkefnum styrki að upphæð 42 m. kr. Sjóðurinnveitti 21 ferðastyrki en vegna Covid 19 fækkaði þeim styrkjum verulega.
Hönnunarsjóði var falið að veita 50 milljónum kr. í aukaúthlutun til átaksverkefna á sviði hönnunar og arkitektúrs í sérstakri ráðstöfun stjórnvalda vegna Covid 19. Í þeirri úthlutun hlutu 49 verkefni styrki en alls bárust 276 umsóknir þar sem sótt var um 520 milljónir.
Haldinn var ráðgjafadagur í samstarfi við Icelandic Startups í nóvember en 38 styrkþegar tóku þátt í honum.
Heimasíða Hönnunarsjóðs
Ha, hvar er HA?
HA, tímarit um íslenska hönnun og arkitektúr hefur verið í útgáfuhléi á þessu ári og verið er að endurskoða rekstrarforsendur blaðsins og skoða nýjar leiðir í útgáfunni.
Miðstöðinni leggur mikla áherslu á að tryggja að áfram verði unnið gæðaefni; greinar, umfjöllun og fréttir um hönnun og arkitektúr á Íslandi til að miðla innanlands sem utan.
Fyrir áhugasama sem vilja festa kaup á eldri tölublöðum er hægt að hafa samband við okkur á info@honnunarmidstod.is.
Góðar leiðir
Góðar leiðir er bræðingur verkefna á sviði innviðahönnunar ferðamannastaða sem byggir á víðtæku samtali milli stofnana, sveitarfélaga, fagfólks og ferðaþjónustuaðila. Verkefnið felur í sér kortlagningu, stefnumótun og þróun hönnunarferla við uppbyggingu, innleiðingu og viðhald innviða, með það að markmiði að vernda viðkvæma náttúru og greiða aðgengi að sterkri náttúruupplifun. Fegurð, virðing og öryggi eru leiðarstef Góðra leiða sem Miðstöð hönnunar og arkitektúrs vinnur í samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
Í febrúar opnuðu Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, Orkustofnun og Umhverfisstofnun sameiginlega upplýsingasíðu NatNorth.is. Síðan inniheldur fjölbreytileg verkefni sem hafa það að markmiði að auka þekkingu, gæði og sjálfbærni í ferðaþjónustu í hánorðri. Verkefnið er hluti af verkefninu Gagnvegum góðum, formennskuverkefni Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2019.
Í ágúst 2020 var teymið Kolofon&co valið til að hanna merkingar og merkingakerfi fyrir ferðamannastaði og friðlýst svæði eftir samkeppni á vegum Miðstöð hönnunar og arkitektúrs í samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Merkingarkerfið fer í loftið á árinu 2021.
Lestu meira hér.
Í nóvember á þessu ári voru haldnir alþjóðlegir samráðsfundir aðila að verkefninu Hönnun í norrænni náttúru. Anna María Bogadóttir, arkitekt leiðir vinnuna fyrir hönd Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs í samstarfi við fagaðila frá Íslandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Færeyjum og Grænlandi. Verkefnið er hluti af formennskuverkefni Íslands í Norrænu ráðherranefndinni, Gagnvegir góðir.
Einnig er unnið að verkefni samstarfshóps um aukna fagþekkingu, bætta hönnun og samræmingu merkinga á ferðamannastöðum sem tengjast Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru- og menningarsögulegum minjum.
Erlend verkefni
Vegna óviðráðanlegra aðstæðna voru alþjóðleg verkefni á árinu 2020 miklu færri en alla jafna.
Þar ber þó hæst þátttaka sex íslenskra hönnuða í stafrænni hönnunarsýningu Adorno, Virtual Design Destination: New Reality, á London Design Festival sem fór fram rafrænt haustið 2020. Íslenski hluti sýningarinnar bar yfirskriftina Tengingar (e. Attunement) þar sem velt var upp spurningum um samband okkar við jörðina og kannski okkur sjálf. Sýningarstjórar voru Hlín Helga Guðlaugsdóttir og María Kristín Jónsdóttir. Íslensku hönnuðirnir sem tóku þátt voru Valdís Steinarsdóttir, Studio Flétta (Birta Rós Brynjólfsdóttir og Hrefna Sigurðarsdóttir), Björn Blumenstein, Ýr Jóhannsdóttir, Sigríður Birna Matthíasdóttir og Halldór Eldjárn.
Lestu meira hér.
Vöruhönnuðurinn Valdís Steinarsdóttir var valin hönnuður ársins hjá Formex Nova Verðlaunin hlaut hún fyrir verkefni sín Bioplastic Skin og Just Bones og hrósar dómnefndin Valdísi sérstaklega fyrir metnað til að hanna einstakar lausnir á samfélags- og umhverfislegum vandamálum í opnu samtali við áhorfendur.
Lestu meira hér
Hönnunarverðlaun Íslands 2020
Hönnunarverðlaunum Íslands 2020 var frestað fram í janúar sökum heimsfaraldurs. Það má því fara að hlakka til á nýju ári þegar hulunni verður svipt af tilnefningum ársins.
Þetta og fjölmargt annað var að frétta á árinu og við mælum með heimsókn hingað á nýja heimasíðu Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs þar sem kennir ýmissa grasa.