Ákvarðanir aðalfundar Arkitektafélags Íslands

Fjölmennt var á aðalfundi Arkitektafélags Íslands miðvikudaginn 26. mars, en fundurinn fór fram í Fenjamýri í Grósku og á Teams.
Á dagskrá voru venjuleg aðalfundastörf. Lagabreytingartillögur stjórnar AÍ voru samþykktar. Uppfærð lög má skoða hér.
Ákvörðun árgjalds:
Samþykkt var að árgjald yrði hækkað í 70.000 kr. fyrir árið 2025.
Samþykkt var tillaga að breyttu árgjaldi eldri borgara sem áður greiddu vefmiðlagjald. Árgjald eldri borgara verður nú 20% af árgjaldi fullgreiðandi meðlima eða 14.000 kr. fyrir árið 2025.
Kosið var um trúnaðarstöður hjá Arkitektafélaginu og fóru kosningar sem hér segir:
Stjórn
Helga Guðrún Vilmundardóttir var kosin formaður AÍ
Sigríður Maack var kosin gjaldkeri AÍ
Jóhanna Höeg Sigurðardóttir var kosin ritari AÍ.
Skoðunarmenn reikninga
Halldóra Vífilsdóttir
Sigríður Magnúsdóttir
Dagskrárnefnd
Bjarki Þór Wium
Elma Klara Þórðardóttir
Lakshmi Björt Þuríðardóttir Jacob
Þórbergur Friðriksson
Framþróunarnefnd
Hlynur Axelsson
Kristján Örn Kjartansson
Anna Karlsdóttir
Sóley Lilja Brynjarsdóttir
Ólafur Ólason
Laganefnd
Hildur Gunnarsdóttir
Hrafnhildur Sverrisdóttir
Guðlaug Erna Jónsdóttir
Menntamálanefnd
Birta Fróðadóttir
Brynhildur Sólveigardóttir
Bryndís Alfreðsdóttir
Hjördís Sóley Sigurðardóttir
Orða- og ritstjórnarnefnd
Guðrún Harðardóttir
Bjarki Gunnar Halldórsson
Fanney Margrét Eiríksdóttir
Samkeppnisnefnd
Björn Guðbrandsson
Falk Krüger
Hildur Gunnlaugsdóttir
Siðanefnd
Hólmfríður Ósmann Jónsdóttir
Jóhannes Þórðarson
Sólveig Berg
Stjórn Minningarsjóðs Guðjóns Samúelssonar
Formaður AÍ - fast sæti í stjórn
Formaður BÍL - fast sæti í stjórn
Garðar Snæbjörnsson
Aðalheiður Atladóttir
Ný stefna AÍ samþykkt
STEFNA ARKITEKTAFÉLAGS ÍSLANDS 2025
Fagmennska og gæði
AÍ vill standa í fararbroddi þegar kemur að umræðu um mikilvægi arkitektúrs í þjóðfélaginu og fræðslu til almennings. AÍ vill því stuðla að vitundarvakningu um mikilvægi þess að daglegt umhverfi okkar sé vel hannað og uppfylli daglegar þarfir okkar því í gæðum bygginga felast lífsgæði fólks. Gæði í arkitektúr auka verðgildi bygginga og stuðla að því að fólk vilji lengur nota þær. Mikilvægt er að almenningur beri kennsl á góðan arkitektúr og þekki arkitekta og viðfangsefni þeirra.
Gott og gjöfult samstarf arkitekta við meðhönnuði, verktaka og verkkaupa eru hornsteinn góðra bygginga. Til að svo megi verða er mikilvægt að þessir aðilar vinni vel saman. Til að leggja grunn að slíkri samvinnu þarf að byrja í náminu og efla samstarf hjá nemum í arkitektúr, verkfræði og byggingafræði.
Jafnframt er mikilvægt að arkitektar geti fylgt sínum verkefnum vel eftir svo fagmennska og gæði séu tryggð. Í því augnamiði er vert að skoða núverandi fyrirkomulag fræmkvæmda og aðkomu arkitekta að verkum eftir að teikningum er skilað.
Aðgerðir:
- AÍ stuðli að útgáfu fræðsluefnis um arkitektúr og arkitekta á Íslandi
- AÍ sendi erindi til fjölmiða og annarra aðila sem fjalla um byggingar með áskorun um að þeir geti höfunda bygginga, en höfundar vakti einnig umfjöllun um eigin verk og geri athugasemdir þegar þeirra er ekki getið
- AÍ efli félagsstarf og umræðu innan félags til þess að geta betur brugðist við opinberri umræðu hverju sinni
- AÍ leiti leiða til að byggingareglugerð verði breytt svo arkitektar sem aðalhönnuðir og samræmingarhönnuðir geti fylgt verkum sínum eftir að loknum skilum á hönnunargögnum til byggingarfulltrúa
Umhverfis- og loftslagsmál
AÍ gerir það að stefnu sinni að vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra hönnun. Í því felst að líta á kolefnislosun byggingariðnaðar heildstætt, með hag og velferð manneskjunnar til framtíðar að leiðarljósi. Mikilvægt er því að til staðar sé aðgengi að nýjustu þekkingu á hverjum tíma og að gerðar verði þverfaglegar rannsóknir hönnuða og vísindafólks sem snúi sérstaklega að byggingariðnaði og byggingarlistarlegum arfi á Íslandi.
Aðgerðir AÍ:
- AÍ verði virkur vettvangur félagsmanna fyrir umræðu og miðlun þekkingar á sviði kolefnislosunar bygginga
- AÍ hvetji yfirvöld til metnaðarfullrar markmiðasetningar til að draga hraðar úr losun kolefnis, samhliða því að efla vettvang (HMS, AÍ) til miðlægrar fræðslu, upplýsingagjafar og samvinnu við hagaðila.
- AÍ hvetji yfirvöld til að efla rannsóknir á byggingarlistalegum arfi þjóðarinnar og íslenskum byggingariðnaði með því að stórauka rannsóknarfé til málaflokkanna samhliða því að koma á fót rannsóknar- og prófunaraðstöðu fyrir byggingarefni sem er grundvöllur hringrásar byggingarefna, þróunar á innlendum byggingarefnum og prófunar á erlendum byggingarefnum við íslenskar aðstæður.
Áherslur félagsmanna AÍ í eigin verkum:
- Að hafa ávalt þarfir notandans og almannahags að leiðarljósi við mótun bygginga og umhverfis, með því að tryggja að íbúðir rúmi daglegar athafnir fólks, að þéttleiki byggðar taki mið af hnattsöðu og skerði ekki birtuskilyrði, og að mótun umhverfis stuðli að mannlífi milli húsanna,
- Að mæta sjónarmiðum byggingaraðila og meðhönnuða með faglegum röksemdum um miklvægi ofangreindra þátta.
- Bera virðingu fyrir sögulegu samhengi og byggingaarfi samhliða minnkun kolefnislosunar með því að lágmaraka niðurrif bygginga og beita sér fyrir því að eldri byggingum verði gefið nýtt hlutverk.
- Að nýbyggingar verði kolefnishlutlausar
- Að afla sér símenntunar á sviði vistvænnar hönnunar
Ímynd
Lengi hefur verið þörf á að auka skilning almennt á hlutverki arkitekta í skipulags- og byggingarmálum og í hverju sérmenntun þeirra er falin og vill AÍ bæta úr því.
Slíkt átak felst annars vegar í ákalli til félagsfólks um að rækta með sér sterka og faglega ímynd með því að vera ötulir talsmenn faglegra sjónarmiða í arkitektúr í verkefnum sínum, tileinka sér faglega símenntun og viðhafa fagleg vinnubrögð.
Hins vegar felur slíkt átak í sér að AÍ verði virkur þátttakandi í almennri umræðu um skipulags- og byggingarmál hverju sinni og standi fyrir fræðslu til almennings og stjórnvalda um sérmenntun og viðfangsefni arkitekta.
Mikilvægt er einnig að AÍ beiti sér fyrir lagabreytingum svo réttindi og ábyrgð arkitekta í skipulags- og byggingarmálum endurspegli sérmenntun þeirra.
Aðgerðir:
- AÍ beiti sér fyrir því að gerðar verði lagabreytingar til þess að styrkja réttindi arkitekta í skipulags- og byggingarmálum sem felast m.a. í að arkitektar hafi einir réttindi til að skila inn aðalteikningum og vera samræmingarhönnuðir og að menntun arkitekta verði metin að verðleikum við öflun réttinda sem skipulagsráðgjafar.
- AÍ útbúi fræðsluefni um sérmenntun og viðfangsefni arkitekta og hafi það aðgengilegt á heimasíðu félagsins, en sendi það jafnframt til opinberra stofnana sem sjá um skipulags- og byggingarmál sem og sveitarstjórna og ráðherra málaflokkanna hverju sinni. Betri fræðsla styrkir ímynd og stöðu arkitekta.
- AÍ taki virkan þátt í samfélagsumræðu til að gera hlutverk arkitekta sýnilegra og koma faglegum sjónarmiðum á framfæri
Hagsmunagæsla
Eins og fram kemur í lögum félagsins þá ber AÍ að standa vörð um hagsmuni félagsmanna og eru það einkum laganefnd, samkeppnisnefnd og framþróunarnefnd sem vinna að vöktun á hagsmunum arkitekta.
Einnig má telja hagsmunamál á hverjum tíma sem snerta arkitekta en eru utan starfssviðs nefnda. Slík hagsmunamál geta t.a.m. verið aðgengi að faglegum upplýsingum, útlistun á hvað felst í hönnunarþóknun, stærri hlutur í verkefnum, verkefni sem aðrar stéttir ásælast, ný tegund verkefna eða frítt aðgengi að hönnunarleiðbeiningum og hönnunarstöðlum.
Rík þörf er á að AÍ verði vettvangur umræðu um hagsmuni arkitekta og að félagsmenn geti komið málefnum og sjónarmiðum sínum á framfæri svo stjórn og nefndir geti stillt sína vinnu betur að vöktun hagsmuna arkitekta hverju sinni.
Aðgerðir:
- AÍ beiti sér fyrir því að gerðar verði lagabreytingar til þess að styrkja réttindi arkitekta í skipulags- og byggingarmálum sem felast m.a. í að arkitektar hafi einir réttindi til að skila inn aðalteikningum og vera samræmingarhönnuðir og að menntun arkitekta verði metin að verðleikum við öflun réttinda sem skipulagsráðgjafar.
- AÍ verði virkur vettvangur umræðum um hagsmunamál arkitekta
- AÍ beiti sér fyrir því að byggingastaðlar verði gjaldfrjálsir
- Að á heimasíðu AÍ verði upplýsingar um hvar megi nálgast gildandi hönnunarleiðbeiningar
Félagsstarf
AÍ er fagfélag fjölbreytts hóps félagsmanna. Innan þess eru nemar í arkitektúr, nýútskrifaðir arkitektar sem eru að stíga sín fyrstu skref, rótgrónir og starfandi arkitektar, launþegar og atvinnurekendur, arkitektar sem eru að ljúka starfsævinni og síðast en ekki síst arkitektar sem hafa lokið störfum.
Félagið er nú eingöngu fagfélag, en var áður líka stéttarfélag, sem gefur tilefni til þess að leggja enn ríkari áherslu á fagleg málefni innra félagsstarfsins. Markmið AÍ er að fjölga félagsmönnum, auka faglega umfjöllun og umræður meðal félagsmanna og efna til viðburða fyrir félagsmenn.
Aðgerðir:
- Stefna að fjölgun félagsmanna með því að hafa reglubundna kynningu á félaginu fyrir nema í arkitektúr, fá þau til þess að skrá sig í félagið og taka þátt í félagsstarfinu, ásamt því að veita fræðslu og aðstoð við ýmis hagsmunamál
- AÍ verði virkur vettvangur umræðu félagsmanna á milli um mikilvæg mál hverju sinni og þar með móta afstöðu félagsmanna sem nýst geti AÍ í opinberri umræðu hverju sinni
- AÍ verði virkur vettvangur fræðslu- og upplýsingamiðlunar fyrir félagsmenn
- AÍ efni til viðburða fyrir félagsmenn, s.s. vettvangsheimsóknir, fyrirlestra og samkoma
- AÍ efli umræðu og fræðslu um jafnréttismál
- Bæta upplýsingagjöf á heimasíðu AÍ, t.a.m. um hönnunarleiðbeiningar, höfundaréttarmál, siðamál, samningagerð, faglega umfjöllun og greinaskrif eða samkeppnir, og jafnframt tryggja aðgengi að eldra efni sem birt hefur verið á heimasíðu AÍ.