- English
- Íslenska
Hraun sem endurnýtanlegt byggingarefni í aðalhlutverki í íslenska skálanum á Feneyjatvíæringnum í arkitektúr

Það styttist í opnun íslenska skálans á Feneyjatvíæringnum í arkitektúr þar sem sýningin Lavaforming eftir s.ap arkitekta tekur sviðið með Arnhildi Pálmadóttur, arkitekt og listrænan stjórnanda í fararbroddi. Miðstöð hönnunar og arkitektúrs kynnti í dag frekari upplýsingar um sýninguna og teymið á bak við hana en búist er við að þó nokkur fjöldi íslendinga verði viðstaddur opnunina í byrjun maí.
Á bak við Lavaforming standa Arnhildur Pálmadóttir, arkitekt, og teymi hennar hjá s. ap arkitektum þau Arnar Skarphéðinsson, arkitekt og meðhöfundur Lavaforming; Björg Skarphéðinsdóttir, hönnuður; og Sukanya Mukherjee, arkitekt, ásamt Andra Snæ Magnasyni, rithöfundi og Jack Armitage, tónlistarmanni og hönnuði.
Lavaforming segir sögu framtíðarsamfélags sem þróar framsæknar lausnir í mannvirkjagerð. Hraunrennsli er beislað og nýtt sem byggingarefni og þannig tekst að umbreyta staðbundinni ógn í auðlind.
s.ap arkitektar er þverfagleg rannsóknarstofa á sviði arkitektúrs með áherslu á tilgátuverkefni framtíðarinnar sem hefur upp á síðkastið unnið að brautryðjandi tilraunum með endurbræðslu hrauns en tilraunirnar, sem meðal annars snúast um að steypa hraun í mót, sýna fram á gífurlega möguleika hrauns sem byggingarefnis.
Efnistilraunir með hraun
s. ap arkitektar
Í okkar sögu árið 2150 höfum við beislað hraunrennslið líkt og við gerðum með gufuaflið á 20. öld. Við vörðum söguna með atburðum sem höfðu áhrif á þróun og tækni en markmið hennar er að sýna að arkitektúr getur verið krafturinn til að endurhugsa og móta nýja framtíð. Hraunflæði getur falið í sér nóg byggingarefni fyrir grunnstoðir heillrar borgar sem rís á nokkrum vikum án skaðlegrar námuvinnslu og óendurnýtanlegrar orkuöflunar.

Þjóðir heims eru að takast á við eina af stærstu áskorunum samtímans, loftslagsbreytingar, og nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að fá fjölbreyttan hóp að borðinu til að leita lausna og þar geta arkitektar, listamenn og hönnuðir lagt mikið til. Verkefni eins og Lavaforming gefur okkur tækifæri til þess að hugsa út fyrir kassann sem hefur aldrei verið mikilvægara en einmitt nú. Lavaforming er frábært dæmi um framsækna lausn og íslenskt hugvit sem hægt er að nýta til að bregðast við breyttu veðurfari í hlýnandi heimi.
Í skálanum fá gestir meðal annars að sjá kvikmynd sem Andri Snær og Jack Armitag hafa unnið með s.ap arkitektum þar sem fjallað er um framtíðarsamfélag með borgarinnviðum alfarið byggðum úr mótuðu hrauni. Áhorfandinn skyggnist inn í líf sex einstaklinga sem deila sögum sínum þar sem byltingarkennd byggingarefni spila stórt hlutverk. Markús Þór Andrésson, deildarstjóri sýninga og miðlunar hjá Listasafni Reykjavíkur er ráðgjafi sýningarinnar en hann hefur stýrt fjölda sýninga m.a. Íslenska skálanum á Feneyjatvíæringnum í myndlist.
Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland tekur þátt í Feneyjatvíæringnum í arkitektúr með opnu kalli en um framkvæmdina sér Miðstöð hönnunar og arkitektúrs fyrir hönd menningar, nýsköpunar og háskólaráðuneytisins. Íslenski skálinn er staðsettur í gamalli slökkvistöð fyrir framan Arsenale sem er annar af tveimur aðalsýningarstöðum tvíæringsins ásamt Gardini. Feneyjatvíæringurinn í arkitektúr er opinn frá 10. maí til 23. nóvember 2025.
Frekari upplýsingar um íslenska skálann, íslenska teymið og verkefnið í heild sinni er að finna á nýopnaðri vefsíðu Feneyjatvíæringsins.