Andlát: Björn Stefán Hallsson, arkitekt, er látinn

Björn lauk arkitektanámi frá Leicester Polytechnic School of Arcitecture á Englandi árið 1978. Hann stofnaði arkitektastofu hér heima en flutti síðan til Chicago þar sem hann varð meðeigandi og yfirhönnuður á 300 manna teiknistofu OWP/P Architects. Björn starfaði erlendis í um 20 ár og voru verkefnin víða í Bandaríkjunum, Evrópu og í Kína þar sem hann dvaldi langdvölum. Árið 2011 flutti Björn aftur til Íslands til að taka við starfi byggingarfulltrúans í Reykjavík. Fljótlega kynntist hann Ólöfu Guðnýju Valdimarsdóttur, arkitekt, og ráku þau saman teiknistofuna BÓ arkitektar. Hann hlaut margar viðurkenningar fyrir verk sín á ferlinum og hélt fyrirlestra og sýningar.
Björn lést á Droplaugarstöðum 29. janúar sl. eftir langa baráttu við MND sjúkdóminn.
Útför Björns hefur farið fram í kyrrþey.
Fyrir þá sem vilja minnast hans hefur fjölskylda hans stofnað minningarsjóð til styrktar rannsóknum á MND sjúkdómnum. https://bjornstefanhallsson.muchloved.com