Arkitektúr og landslag á HönnunarMars
Nú er HönnunarMars á næsta leiti en á dagskrá hátíðarinnar í ár eru rúmlega 100 sýningar og 200 viðburðir. Það ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
HönnunarMars fer fram dagana 4. - 8. maí. Hér að eru nokkrir viðburðir á HönnunarMars sem fjalla á einn eða annan hátt um arkitektúr, umhverfi okkar og landslag.
Erik Bryggman – norrænn arkitekt 1891-1955
Erik Bryggman var með áhrifamestu arkitektum sinnar kynslóðar og mun með hönnun sinni hafa, ásamt Alvar Aalto, markað upphaf virknihyggju (functionalism) í Finnlandi. Eftir hann stendur fjöldinn allur af byggingum sem þykja hornsteinn í byggingarsögu 20. aldar og hafa svo sannarlega staðist tímans tönn. Bryggman-stofnunin í Eistlandi hefur sett saman sýningu í Norræna húsinu um feril Bryggman og áhrif hans á byggingarsögu Norðurlandana.
Hlaupið um arkitektúr
Í ár býður Arkitektafélag Íslands upp á hlaupaviðburð á HönnunarMars. Arkitektar munu leiða þig um fjölbreytt og margslungið umhverfi borgarinnar á hlaupum. Reimdu á þig hlaupaskóna og vertu með. Alls verður boðið upp á fjögur hlaup þar sem þátttakendur verða leiddir um fjölbreytt og margslungið umhverfi Reykjavíkurborgar. Engin þarf að óttast þótt hlaupaformið sé ekki upp á tíu, boðið verður upp á hlaup fyrir byrjendur sem og lengri komna. Allir ættu því að geta notið þess að upplifa borgina á nýjan hátt með örlítið örari hjartslátt en vanalega.
Annar Laugavegur
Bókin „Laugavegur“ kom út fyrir jólin 2021 á vegum bókaforlagsins Angústúru. Í henni er byggingar- og verslunarsaga aðalgötunnar sögð í máli og myndum og tilraun gerð til að útskýra hvers vegna Laugavegurinn hefur þróast með þeim hætti sem raun ber vitni. Finna má fróðleik um yfir hundrað húsnúmer við Bankastræti og Laugaveg. Fjallað er um þróun borgarrýmisins og húsin sem eru, voru og ekki urðu. Á HönnunarMars sýna höfundar bókarinnar teikningar og ljósmyndir úr bókinni í Epal, en aðaláherslan verður á efni sem Guðni gerði sérstaklega fyrir bókina en rataði ekki í endanlega útfærslu hennar.
Home / Biome
Home / Biome er útskrifasýning meistaranema í hönnun frá Listaháskóla Íslands í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem þau sýna eigin verk og varpa fram framtíðarmöguleikum hvernig hægt er að búa í raunverulegu, sýndar- og blönsuðu umhverfi. Meistaranám í hönnun við Listaháskóla Íslands byggir á tilraunakenndum vinnustofum, nánd við viðfangsefni og persónulegri leiðsögn. Í náminu er fjallað um ólíka veruleika og valkosti og sjónum beint að lifandi sambandi þess hlutbundna og þess óhlutbundna.
Sögur af sköpun – tilvera hönnunar á The Retreat við Bláa lónið
Sýningin Sögur af sköpun – tilvera hönnunar á The Retreat við Bláa lónið á Hafnartorgi sviptir hulunni af tengingu The Retreat hótelsins við náttúru og mannlíf og segir nýjar sögur af innra landslagi hótelsins.
Bláa lónið hefur verið í forystu íslenskrar hönnunar í þrjá áratugi. Hönnun og útlit Bláa lónsins sprettur upp úr landslagi eldsumbrota þar sem form, litir og áferðir náttúrunnar skína í gegn. The Retreat hótelið opnaði árið 2018 og hefur á skömmum tíma hlotið ótal verðlaun og viðurkenningar, til dæmis hin eftirsóttu Red Dot verðlaun. The Retreat er hápunktur þeirrar fagurfræði sem Bláa lónið hefur tileinkað sér. Rými hótelsins, bæði inni og úti, flæða saman í rólegu jafnvægi og vel valdir innanstokksmunir ýta undir vellíðan.
ARKITÝPA - form / flæði / virkni / VARA
ARKITÝPA hannar skúlptúrísk rýmisgögn með áherslu á endurnýttan efnivið úr fjölbreyttum iðnaði, með nýskapandi tilraunum í formi og efni. Sýningin „ARKITÝPA – form / flæði / virkni / VARA“, sem opnar í Epal, teflir fram vöru, þar sem tilraunir í flæði og virkni taka á sig endanlegt form.
UNDIRLAND – UPPSTREYMI
Í verkefninu UNDIRLAND – UPPSTREYMI koma tvö verkefni saman sem tengjast vistkerfi hrauns á bæði örkvarða og stórskala. s. ap. arkitektar kynna hraumyndanir, eða lavaforming, verkefni hátæknisamfélags sem hefur sagt skilið við gróðahámörkun og er því frjálst að rannsaka nýskapandi og framsæknar lausnir. Verkið rannsakar hvernig nota megi hraun sem byggingarefni. Grugg & Makk kynnir nýjan villibjór sem ræktaður er úr örverum úr nýju hrauni. Gestir upplifa verkefnið í gegnum sýndarveruleika samhliða og þeir teyga villiöl á barnum UNDIRLAND.
Elliðaárstöð – Hönnun og upplifun í borgargarði
Elliðaárstöð var vígð árið 1921 og lýsti þá leiðina til framtíðar. Rafmagnið og veiturnar sem fylgdu fljótt í kjölfarið byltu lífsgæðum borgarbúa og með þeim varð til þekking og hugvit sem samfélagið býr enn að í dag. Með opnun svæðis Elliðaárstöðvar haustið 2022 fá gestir á öllum aldri að upplifa sögu orkunýtingar í dalnum, áhrifin á þjóðfélagið og vísindin sem búa þar að baki. Í stað þess að virkja árnar verður lögð áhersla á að virkja fólk og hugvit. Framsýni fyrri tíma og ósýnileg virkni veitukerfanna er helsti innblástur verkefnisins, en hinn nýi áfangastaður mun bera nafn gömlu rafstöðvarinnar, Elliðaárstöð.
Hönnunarteymið Terta leiðir gesti um svæðið sem nú er í uppbyggingu, bæði laugardag og sunnudag, og segir frá verkefninu og hönnunarnálgun sinni auk þess sem aðrar uppákomur glæða svæðið lífi á HönnunarMars. Að auki er boðið er uppá fjölbreytta dagskrá alla helgina.
Kvenkyns frumkvöðlar og Sögulegar byggingar
Norræna húsið, í samstarfi við Arkitektafélag Íslands, efnir til málstofu í tveimur hlutum í tilefni af HönnunarMars, fimmtudaginn 5. maí kl. 10:00 - 14:30. Hópur sérfræðinga mun kynna okkur fyrir sögu og verkum norrænna kvenkyns arkitekta, sem teljast brautryðjendur á sínu sviði. Báðir hlutar málstofurnar tengjast sögu Norræna hússins.
Kvenkyns frumkvöðlar, fyrri hluti málstofunnar, er tileinkaður nokkrum af þeim merkilegu konum sem hafa sett kraftmikið spor í byggingarsöguna. Í öðrum hluta málstofunnar Sögulegar byggingar heyrum við frá arkitektatvíeykinu Kurt og Pí og vinnu þeirra við söguleg hús á Íslandi auk þess heyrum við þeirra inntak vegna komandi endurbóta Norræna hússins í Reykjavík.