Viðburðir fyrir fjölskylduna á HönnunarMars
Nú er HönnunarMars á næsta leiti en á dagskrá hátíðarinnar í ár eru rúmlega 100 sýningar og 200 viðburðir. Það ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
HönnunarMars fer fram dagana 4. - 8. maí. Hér að neðan höfum við tekið saman nokkra viðburði sem gætu verið sérstaklega áhugaverðir fyrir börn, fjölskyldur og barnapíur.
Bíbí og blabla
studio allsber hefur verið að rannsaka samskipti manna og fugla og gert ýmsar tilraun til þess að hanna nauðsynlega og yndisaukandi hluti fyrir þá, sem og okkur sjálf, mannfólkið. Á HönnunarMars sýnir studio allsber fuglablöð og fleira, einskonar sundlaugar fyrir fugla sem veita þeim skjól fyrir veður og vindum, og staður þar sem hægt er að gefa þeim fóður.
HLJÓÐHEIMAR
Hvað gera hönnuðir eiginlega? Geta krakkar verið sérfræðingar hönnuða?
Hljóðhimnar er upplifunarrými fyrir börn og fjölskyldur á jarðhæð Hörpu. Á HönnunarMars opnar fjölskylduvæna sýningin ,,Undir Hljóðhimnum“ sem veitir innsýn í hönnunarferlið á bak við rýmið. ÞYKJÓ býður einnig uppá tvær vinnustofur á HönnunarMars, annarsvegar Dýratónar, tónlistarsmiðju með tónlistarkonunni Sóley laugardaginn 7. maí kl. 14:00 og hisnvegar tónlistarsmiðjan Klapp klapp stapp stapp, sunnudaginn 8. maí kl. 14:00.
AS WE GROW : Spor í söguna
Saga AS WE GROW er spunnin í kring um hefðir og handverk. Í anda þess setur AS WE GROW upp sporastofu í verslun sinni þar sem hægt verður að fá sínar uppáhalds AS WE GROW flíkur áritaðar með útsaumi. Einnig verður vor- og sumarlínu merkisins sýnd við nýja verslun AS WE GROW á Klapparstíg 29.
Elliðaárstöð - Hönnun og upplifun í borgargarði
Elliðaárstöð opnar í haust en húsin á Rafstöðvarreitnum fá nýtt hlutverk og ýtt verður undir fjölbreytta og fræðandi upplifun í ævintýralegu umhverfi Elliðaárdals. Á HönnunarMars geta gestir kynnt sér svæðið sem er í uppbyggingu en helgina 7. og 8. maí verður allt iðandi af lífi. Hönnunarteymið Terta leiðir gesti um svæðið, boðið verður uppá Hönnunargöngu um verkið Maðurinn í skóginum, Mannyrkjustöðin býður gestum uppá útþennsluferð og frumflutt verður nýtt verk eftir Eydísi Egilsdóttur Kvaran á dórófón eftir Halldór Úlfarson. Að auki verða ýmsar uppkomur fyrir börn og fullorðna báða dagana frá 12:00 - 17:00
Betri borg fyrir börn
Sýningin er upplifunarsýning þar sem gestir fá að skyggnast á bakvið tjöldin hjá Reykjavíkurborg í ferli þjónustuumbreytingar. Komdu að sjá hvernig áskoranir eru ávarpaðar, hvernig Reykjavíkurborg vinnur með þær og setjur fram stafræna lausn sem bætir þjónustu borgarinnar við íbúa í verkefninu Betri borg fyrir börn.
Værðardýna - Ungbarnanudd
Værðardýna er ný nudddýna fyrir ungabörn unnin úr Lopiloft fyllingu frá Ístex. Foreldrar geta sótt allt að 90 mínútna langa vinnustofu í ungbarnanuddi með sínu barni þar sem báðir aðilar fá tækifæri til að upplifa notkun á Værðardýnunni. Í vinnustofunni verður kennt ungbarnanudd sem hentar börnum að eins árs aldri en vinnustofan er ætluð foreldrum barna á aldrinum 1-11 mánaða.