Minn HönnunarMars - gúmmelaði og upplifun hjá Búa Bjarmari Aðalsteinssyni

HönnunarMars 2022 er rétt handan við hornið en hátíðin fer fram 4. til 8. maí. Dagskráin í ár samanstendur af rúmlega 100 sýningum og 200 viðburðum. Um er að ræða fjölbreytta og spennandi viðburði sem endurspegla gróskumikið íslenskt hönnunarlandslag. Leikgleði og forvitini eru einkennandi á dagskránni í ár en viðfangsefnin eru m.a. samskipti, framtíðarsýn, örverur, fuglar, sjálfbærni, heilsa og náttúra. Það er ekki úr vegi að fá smá leiðsögn um dagskránna og höfum við því fengið nokkra vel valda aðila til þess að velja þá viðburði sem að þau ætla ekki að missa af á HönnunarMars.
Búi Bjarmar Aðalsteinsson, hönnuður, deilir með okkur hvaða sýningum hannn ætlar ekki að missa af í ár.
Tilraun - Æðarrækt

Mjúkir fuglar eru ómótstæðilegir og það er spennandi fólk að krukka eitthvað í þeim. Vona að hér verði hægt að pota í eitthvað mjúkt flúff.
Hugverk

Alltaf gaman að sjá ný verk og prótótýpur verða til og svo er líka hægt að bjóða í góssið. Til dæmis verk eftir mig - væri næs ef einhver byði hátt í það (þá gæti maður kannski aðeins saxað á yfirdráttinn).
Design Diplomacy

Spennandi vettvangur til að gæða sér á veitingum í boði sendiráða og bera saman gestrisni ólíkra landa. Eins er hægt að hlusta á röflið í einhverjum hönnuðum á meðan maður gúffar í sig gúmmelaðinu.
Elliðaárstöð – Hönnun og upplifun í borgargarði

Verður spennandi að sjá hvernig gengur að klastra þessu saman. Líka boðið uppá einhverja spennandi upplifun í dalnum - mamma býr svo rétt hjá, þannig að ég get tvínýtt ferðina.
Snert á landslagi

Það er algjört bras að vera hönnuður, maður er alltaf að subba út heiminn. Tinna Gunnarsdóttir er minnst subbulega manneskjan sem ég þekki. Hún getur eflaust gefið innsýn í það hvernig við getum hannað í og með náttúrunni.