Minn HönnunarMars - mjúkloðið fuglaþema hjá Berglindi Pétursdóttur
HönnunarMars 2022 er rétt handan við hornið en hátíðin fer fram 4. til 8. maí. Dagskráin í ár samanstendur af rúmlega 100 sýningum og 200 viðburðum. Um er að ræða fjölbreytta og spennandi viðburði sem endurspegla gróskumikið íslenskt hönnunarlandslag. Leikgleði og forvitini eru einkennandi á dagskránni í ár en viðfangsefnin eru m.a. samskipti, framtíðarsýn, örverur, fuglar, sjálfbærni, heilsa og náttúra. Það er ekki úr vegi að fá smá leiðsögn um dagskránna og höfum við því fengið nokkra vel valda aðila til þess að velja þá viðburði sem að þau ætla ekki að missa af á HönnunarMars.
Berglind Pétursdóttir, sjónvarpskona og hugmynda- og textasmiður, deilir með okkur hvaða sýningum hún ætlar ekki að missa af í ár.
Eftir að ég tók saman þennan lista tók ég eftir því að það var einskonar mjúkloðið fuglaþema hjá mér í ár, en þeir sem þekkja mig vita að ég er ótrúlega svag fyrir öllu sem er mjúkt og loðið. Núna get ég eiginlega ekki beðið eftir að vefja mig í allskonar ull, dún og þræði á HönnunarMars í Maí.
Gæla
Ég er sérlegur aðdáandi Gæluverkefnisins og pælinga þeirra um tilfinningaleg tengsl milli manns og hlutar. Ég á einmitt mjög loðið veski frá þeim sem fylgir mér hvert sem ég fer og finn því djúpa tengingu við þessi aðlaðandi síðu hár lambaskinnsins.
Einangrun
Íslenskur gervifeldur hljómar eins og eitthvað sem er hægt að gera æðislega tískuvöru úr. Ég stend með þessum tilraunum.
Tilraun – Æðarrækt
Æðarfuglinn og æðarbændur hafa þróað einstakt samband sín á milli byggt á vináttu og gagnkvæmu trausti. Hversu sætt? Pælið í að vera lítill æðarfugl með mjúkan dún og vinalegur bóndi ver þig gegn rándýrum. Hvernig borgarðu honum til baka? Með dúninum þínum!
Snúningur
Ef allir gætu fengið jafn góðar og litríkar og fallegar hugmyndir og Hanna Whitehead væri heimurinn örugglega aðeins betri en hann er í dag. Ég hlakka mjög til að fylgjast með þessu – og það er listasmiðja fyrir fullorðna!
Uppskeruhátíð studio allsber
Langamma mín drakk bara úr mávastelli, fannst svo gott að drekka úr því og meikaði enga aðra bolla. Andi hennar lifir í mér því ég elska að drekka úr æðislegum bolla – og þetta eru bestu bollar landsins í dag, þótt þeir séu aðeins þykkari en mávurinn.