Arnar Halldórsson í stjórn Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs
Arnar Halldórsson, sköpunarstjóri (CD) og einn af eigendum á sköpunarstofunni Brandenburg,
hefur tekið sæti í stjórn Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.
Arnar hefur stýrt bæði strategíu og skapandi vinnu fyrir fjölmörg innlend félög, s.s KEF, Heima, Sky Lagoon, VÍS, BIOEFFECT og starfað fyrir alþjóðleg vörumerki á borð við Diadora, Geox, SEAT, Circle K, Diesel og IKEA. Verkefni sem Arnar hefur leitt hafa unnið til ýmissa alþjóðlegra verðlauna, s.s. Cannes Lions, Cresta, Eurobest, The One Show, The New York Festivals, Clio og Epica.
Auk starfa sinna hjá Brandenburg hefur Arnar starfað sem yfirhönnunarstjóri (Chief Creatiivity Officer) á nokkrum af virtustu auglýsingastofum Skandinavíu á borð við NORD DDB, SMFB og The Oslo Company.
Miðstöð hönnunar og arkitektúrs er í eigu félaganna níu, en í stjórn sitja fimm manns, þar af þrír aðilar skipaðir úr hluthafahópi og tveir aðilar úr atvinnulífi.
Stjórn mótar félaginu stefnu og hefur eftirlit með því að henni sé framfylgt, stuðlar að vexti og viðgangi félagsins og hefur yfirumsjón með rekstri. Stjórninni ber að gæta jafnt hagsmuna allra hluthafa.