CCP hlýtur viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun á Hönnunarverðlaunum Íslands 2021
Viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun árið 2021 á Hönnunarverðlaunum Íslands hlýtur fyrirtækið CCP Games. Það var Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins sem veitti forsvarsmönnum CCP viðurkenninguna við hátíðlega athöfn í Grósku.
Frá dómnefnd:
Frá því að CCP Games var stofnað árið 1997 hefur fyrirtækið gefið út margverðlaunaða fjölspilunarleiki á borð við EVE Online, EVE Valkyrie, Dust 514 og EVE Echoes. Í nær aldarfjórðung hefur CCP mótað og skapað sögusvið og útlit sem heillað hefur tölvuleikjaspilara á heimsvísu og nú hafa um fjörutíu milljónir manns tekið þátt í að móta þann heim sem EVE Universe er.
Hjá CCP eru hönnuðir mikilvægir hlekkir í þverfaglegum teymum sem skapa í sameiningu einstakt sögusvið fjarlægrar framtíðar þar sem hugmyndaflug fær lausan tauminn. CCP er jafnframt einn fjölmennasti vinnustaður hönnuða á Íslandi, en þar starfa nú um 40-50 hönnuðir með afar fjölbreytt starfssvið sem spannar allt frá viðmótshönnun, leikjahönnun og þrívíðri hönnun yfir í upplifunarhönnun, frásagnarhönnun – og svo mætti áfram telja.
Tölvuleikjaiðnaðurinn er í dag mjög mikilvægur hluti skapandi greina og vaxandi hugverkaiðnaðar á Íslandi með tuttugu starfandi fyrirtæki sem sérhæfa sig í tölvuleikjagerð. Starfsemi CCP hefur haft ómetanleg áhrif á fagið í heild og lagði á sínum tíma grunn að nýjum vettvangi hönnunar hér á landi sem flestum þykir nú sjálfsagður.
Hönnunarverðlaun Íslands 2021 fóru fram í Grósku þann 29. október við hátíðlega athöfn fyrir fullum sal gesta. Kynnir kvöldsins var Guðrún Sóley Gestsdóttir, fjölmiðlakona en fyrr um daginn fór fram samtal um framtíð byggða á hönnun, hugviti og nýsköpun undir stjórn Hrundar Gunnsteinsdóttur, framkvæmdastjóri Festu - miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni.
Hönnunarverðlaun Íslands voru veitt í fyrsta sinn árið 2014 og varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar og arkitektúrs. Verðlaunin beina sjónum að því besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi um leið og einstaka hönnuðum eða hópum hönnuða er veitt mikilvæg viðurkenning.
Í dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands 2021 sátu:
María Kristín Jónsdóttir/Sigríður Sigurjónsdóttir, formenn, Hönnunarsafn Íslands
Hildigunnur Sverrisdóttir, arkitekt, LHÍ
Þorleifur Gíslason, grafískur hönnuður MH&A
Margrét Kristín Sigurðardóttir, SI
Katarina Siltavuori, framkvæmdastjóri Archinfo í Finnlandi. MH&A
Ragna Fróðadóttir, textíl- og fatahönnuður, og framkvæmdastjóri Edelkoort Inc. MH&A
Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.