Dagur Eggertsson arkitekt með opinn fyrirlestur í LHÍ
Dagur Eggertsson arkitekt heldur opinn fyrirlestur í arkitektúrdeild og hönnunardeild miðvikudaginn 17. mars kl. 12:15 – 13:00 á Microsoft Teams. Dagur hóf nýlega störf sem gestaprófessor við arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands. Hann útskrifaðist frá Arkitektaskólanum í Osló árið 1992 og Tækniháskólanum í Helsingfors 1997.
Dagur settist að í Osló þar sem hann hefur rekið arkitektastofuna Rintala Eggertsson Arkitektar frá árinu 2007 með Sami Rintala og Vibeke Jenssen sem gekk til liðs við þá árið 2008. Stofan hefur fengist við fjölbreytt verkefni af ýmsum stærðum og gerðum og komið víða við.
Dagur, Sami Rintala og Vibeke Jenssen voru öll nemendur Juhani Pallasmaa sem hefur haft mikil áhrif á arkitektakennslu víða um heim. Það sem einkennir Rintala Eggertsson Arkitekta eru hönnunar- og byggingaverkefni sem unnin eru í samstarfi við arkitektanema og verkkaupa. Stofan hefur tekið þátt í arkitektasýningum á þekktum listasöfnum á borð við Victoria & Albert Museum í London og MAXXI safnið í Róm, þau hafa fimm sinnum tekið þátt í Feneyjatvíæringnum í arkitektúr, síðast með sérverkefninu Corte del Forte árið 2018. Stofan er þessa dagana að hanna skála Noregs fyrir heimssýninguna í Dubai sem mun opna í október 2021.
Viðburðurinn á Facebook
Hér fyrir neðan má lesa samtal Listaháskóla Íslands við Dag Eggertsson sem hefur víðtæka reynslu á sviði kennslu um allan heim.
Hvenær fluttir þú til Noregs, og hvers vegna býrðu þar enn?
Ég flutti til Noregs árið 1986 þegar ég var að hefja nám í arkitektúr. Það var löngu áður en farið var að kenna arkitektúr á Íslandi og þess vegna urðum við sem vorum í umsóknarferlinu að senda á talsvert marga skóla til að auka líkurnar á að komast inn. Ég valdi Osló vegna þess að ég hafði heyrt jákvæða hluti um skólann og svo fannst mér líklegt að land með svipaða veðráttu og Ísland hefði þróað byggingaraðferðir sem væri hægt að læra af. Á þessum tíma var mikið um steypuskemmdir í fjölmiðlum og enginn virtist vera sammála um hvernig leysa ætti vandann. Eftir námið ákvað ég að staldra við og reyna fyrir mér á norskum vinnumarkaði. Þá var töluvert atvinnuleysi í stéttinni og þannig lagað ekki mikið að toga mig heim. Ég fékk góða vinnu og stofnaði svo fjölskyldu með fyrrum bekkjarsystur minni úr náminu. Við höfðum unnið töluvert saman á meðan á náminu stóð og rekum núna stofuna Rintala Eggertsson Arkitekta saman.
Hvað leggjið þið hjá Rintala Eggertsson Arkitektum mest áherslu á í ykkar hönnun?
Við höfum í raun og veru reynt að nálgast hvert verkefni sem kemur inn á stofuna sem sjálfstætt verkefni og óháð öllum öðrum. Það er þó ýmislegt sem hægt er að yfirfæra úr einu verkefni yfir í annað og eflaust margt sem maður tekur ómeðvitað með sér á milli verkefna. En af þeim hlutum sem við erum mikið að tala um við okkar kúnna eru sjálfbærar lausnir, hvort sem það á við um efnis- eða orkunotkun, þá verðum við að huga að umhverfinu og spyrja okkur sjálf út í það hvernig við getum komist hjá að eyðileggja náttúruna með því sem við erum að gera í okkar starfi. Það er sem betur fer mikil vakning í gangi meðal almennings og margir sem vilja byggja vistvænt, en það er því miður langt í land.
Hver myndirðu segja að væri helsti munurinn á því að starfa sem arkitekt í Noregi eða á Íslandi?
Ég hef í raun ekki komið að mörgum verkefnum á Íslandi. Ég var mörg sumur í byggingarvinnu sem unglingur og þá kynntist maður tungumáli steinsteypunnar. Svo vann ég eitt sumar hjá Studio Granda þar sem ég kynntist tungumáli stálsins og svo hef ég kynnst tré-tungumálinu (ef svo má að orði komast) hérna í Noregi og svo síðar í Finnlandi þar sem ég tók mína seinni meistaragráðu. Ég held að aðalmunurinn sé sá að við erum mikið að vinna með timbur hérna í Noregi. Það er ódýrt, vistvænt og auðvelt að nálgast góða smiði sem skila góðum árangri. Við verðum samt að leysa verkefnin með því sem er fyrir hendi og það er ekki gefið að timbur sé alltaf besti efniviðurinn, því að kolefnissporið getur orðið ansi stórt ef maður er að flytja timbur á milli heimshluta. Stofan er þessa stundina að vinna að verkefni á Spáni sem er nær eingöngu úr steypu og svo að öðru í Chile sem samkvæmt átælun á að vera úr fléttuðum pílviði.
Hvernig leggst það í þig að fara að kenna við Listaháskólann? Hefurðu kennt arkitektúr áður og þá hvar?
Það leggst mjög vel í mig. Ég kenndi haustið 2002 í fyrsta námskeiðinu í arkitektúr eftir að arkitektúrdeild LHÍ var sett á laggirnar. Ég hef því verið með alveg frá upphafi, en bara komið til landsins í kennslu annað slagið síðan þá. Ég hef kennt mjög víða og verið prófdómari við arkitektaskólann í Osló nær óslitið síðan 2010. Síðast var ég að kenna við Cornellháskólann í New York og fyrir það hjá University of Virginia og Fay Jones School of Architecture í Arkansas. Þetta eru margar flugferðir yfir hafið, en það venst og núna hefur það líka færst í aukana að kenna í gegnum Teams eða Zoom þannig að maður þarf ekki að vera að ferðast alveg eins mikið. Það eru kostir og ókostir við að vera í svona stafrænni kennslu. Kosturinn er eins og ég kom inn á að þú þarft ekki að ferðast eins mikið en ókosturinn er að maður nær ekki að fylgja nemendunum eins mikið eftir og þess vegna geta samskiptin orðið dálítið stirð. Mér finnst nemendur okkar þó hafa náð nokkuð góðum tökum á þessu, en þó svo að það sé farið að létta á takmörkunum hefur ekki verið einfalt fyrir þau að hafa ekki haft aðgang að verkstæði skólans.
Hver er helsti kosturinn við að kenna? Gagnast þér i kennslu að vera starfandi arkitekt?
Það að starfa sem arkitekt er háð heilmiklum samskiptum, allt frá verkkaupum til stjórnmálamanna. Maður verður þess vegna að temja sér pedagógíska aðferðafræði þegar það kemur að því að útskýra það sem maður er að gera. Ef þú vilt ýta aðeins við fólki með því sem þú ert að gera verðuru að taka þér tíma í að útskýra og þá stundum alveg frá grunni. Það er því gott að hafa ákveðinn skilning á kennslu í starfinu. Þetta á sérstaklega við um opinber verkefni og verk þar sem notendahóparnir eru stórir - og svo er fólk oft mjög fróðleksfúst og langar til að skilja til dæmis hvernig þversnið veggjarins er, hvernig maður leysir vatnsrennsli af þaki og hvaða efni maður mælir með í fúavörn. Fólk er farið að átta sig á að hönnun er hugvit og mikið er lagt í innihald hönnunarinnar.