DesignTalks 2022 - Liam Young, sci-fi arkitekt og leikstjóri
Liam Young, sci-fi arkitekt, leikstjóri og framleiðandi kemur fram á DesignTalks 2022, alþjóðlegu ráðstefnunni og lykilviðburði HönnunarMars, sem varpar ljósi á hvernig hönnun og arkitektúr getur tekið þátt í uppbyggingu og framþróun og verið hreyfiafl breytinga.
Young staðsetur sig í rýminu á milli hönnunar, skáldskapar og framtíðarrýni. BBC lýsir honum sem „manninum sem hannar framtíð okkar“ en framsýnar kvikmyndir hans og hliðarheimar varpa ljósi á óvenjulega framtíðarsýn og fjalla með gagnrýnum hætti um hin brýnu umhverfismálefni sem brenna á heiminum í dag.
Young hefur verið leiðandi á sínu sviði og haft mikil áhrif á nýjar kynslóðir arkitekta. Hann er þekktur fyrir að skapa og myndlýsa heimsmyndir, borgir og rými ímyndaðrar framtíðar, bæði fyrir sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðinn og sínar eigin kvikmyndir sem hafa verið sýndar á Channel 4, Apple+, SxSW, Tribeca, New York Metropolitan Museum, The Royal Academy, Feneyjatvíæringnum, BBC og Guardian. Myndir hans má finna í söfnum á borð við the New York Met, Art Institute of Chicago, the Victoria and Albert Museum, the National Gallery of Victoria og M Plus Hong Kong, og sömuleiðis hlotið lof og miðlun á vettvangi á borð við TED, Wired, New Scientist, Arte, Canal+, Time magazine og margt fleira.
DesignTalks 2022 snýr aftur á dagskrá þann 4. maí í Silfurbergi í Hörpu og stjórnandi er Hlín Helga Guðlaugsdóttir og kynnir verður Marcus Fairs, ritstjóri og stofnandi ein virtasta hönnunarmiðils í heimi í dag, Dezeen, sem tengir samtalið alþjóðlegu samhengi og dregur fram mikilvægi þess fyrir breiðari hóp.
Dagskrá dagsins verður ferðalag um fornar aðferðir, seiglu, handverk og frumbyggja visku, um tilraunir til endurhugsunar núverandi kerfa, viðbragð við krísuástandi, hönnun upplýsinga, tækni og gagnalæsi yfir í útvíkkaða raunveruleika og spáhönnun sem dregur upp framtíðarmyndir til að spegla og rýna samtímann.
Fylgstu með er við tilkynnum hverjir fleiri koma fram á DesignTalks 2022!
Þetta verður hátíð ímyndunaraflsins - og stund íhugunar.