DesignTalks Reykjavík snýr aftur 2022!
Alþjóðlega ráðstefnan og lykilviðburður HönnunarMars, DesignTalks snýr aftur á dagskrá þann 4. maí í Silfurbergi í Hörpu. DesignTalks 2022 varpar ljósi á hvernig hönnun og arkitektúr getur tekið þátt í uppbyggingu og framþróun og verið hreyfiafl breytinga.
Miðasala er opin og takmarkaður fjöldi miða á sérstöku forsöluverði. Kynntu þér miðaverðið hér. Vinsamlegast athugið sérkjör fyrir félagsmenn Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.
Dagskráin verður ferðalag um fornar aðferðir, seiglu, handverk og frumbyggja visku, um tilraunir til endurhugsunar núverandi kerfa, viðbragð við krísuástandi, hönnun upplýsinga, tækni og gagnalæsi yfir í útvíkkaða raunveruleika og spáhönnun sem dregur upp framtíðarmyndir til að spegla og rýna samtímann.
Stjórnandi DesignTalks er Hlín Helga Guðlaugsdóttir og kynnir verður Marcus Fairs, ritstjóri og stofnandi ein virtasta hönnunarmiðils í heimi í dag, Dezeen, sem tengir samtalið alþjóðlegu samhengi og dregur fram mikilvægi þess fyrir breiðari hóp.
Þetta verður hátíð ímyndunaraflsins - og stund íhugunar.
Marcus Fairs er aðalritstjóri og stofnandi ein virtasta hönnunarmiðils í heimi í dag, Dezeen. Fairs er fyrsti blaðamaður stafræns miðils til að hljóta heiðursstyrk frá Royal Institute of British Architects og árið 2018 var hann valinn einn af 1000 áhrifamesta fólki í London af Evening Standard. Marcus, sem útskrifaðist í þrívíddarhönnun, hóf blaðamennskuferil sinn með skrifum fyrir arkitektúrmiðilinn Building Design og síðar fyrir Building, þar sem hann varð staðgengill ritstjóra. Hann opnaði Dezeen í lok nóvember 2006 sem almennt er talinn einn áhrifamesti og vinsælasti hönnunarvefur í heimi. Marcus hefur skrifað bækur eins og Twenty-First Century Design, Green Design, Dezeen Book of Ideas og Dezeen Book of Interviews.
Hlín Helga Guðlaugsdóttir hefur stýrt DesignTalks fyrir Miðstöð hönnunar og arkitektúrs frá árinu 2015. Hlín, sem er hönnuður, sýningarstjóri og ráðgjafi, hefur stýrt fjölmörgum alþjóðlegum sýningum, hugveitum og ráðstefnum, auk þess að leiða skapandi verkefni af stórum og smáum skala hjá ýmsum fyrirtækjum og stofnunum, nú síðast hjá hönnunarstofunni Gagarín. Síðasta áratug hefur Hlín sinnt kennarastöðum við Listaháskóla Íslands, Konstfack listaháskólann í Stokkhólmi, Stockholm School of Entrepreneurship og stýrt fjölda námskeiða í hönnun og framtíðarrýni, t.d. Parsons New School of Design, New York, Hong Kong Polythecnic og Singapore háskóla.
DesignTalks hefur verið lykilviðburður HönnunarMars hátíðarinnar frá 2009 og sýnir litróf hönnunar og arkitektúrs, mikilvægi þess, kraft og möguleika í samfélaginu, í dag - og á morgun. HönnunarMars 2022 fer fram dagana 4. - 8. maí.
Í gegnum árin hafa fjölmargir eftirsóttir fyrirlesarar komið fram á DesignTalks. Þar má nefna arkitektinn Bjarke Ingels, fatahönnuðinn og aktívistann Katharine Hamnett, Winy Maas, Paul Bennett of IDEO, arkitektinn Kristian Edwards frá Snøhetta, farathönnuðinn Henrik Vibskov, Robert Wang of Google Creative Lab, Studio Swine, fatahönnuðinn Calvin Klein, Daisy Ginsberg, Jonathan Barnbrook, Eley Kishimoto, Jessica Walsh of Sagmeister&Walsh, Ilkka Supponen, Marti Guixé, Jersey Seymour, Anthony Dunne of Dunne & Raby, Marshmallow Laser Feast, Marije Vogelzang og margir fleiri.
Fylgstu með þegar við tilkynnum hverjir koma fram og spennandi dagskrá DesignTalks 2022.
Vertu með og taktu þátt í að skapa framtíðina!