Fegurð, ógn og tækifæri þörunga
3 árs nemar í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands opna um helgina sýninguna Regnskógar Norðursins: Endurfundir í fjörunni sem er afrakstur 14 vikna námskeiðs leitt af Tinnu Gunnarsdóttur. Sýningin er í húsnæði skólans í Þverholti og opin öllum.
Í tilkynningu um sýninguna má lesa eftirfarand:
Á Íslandi er oft talað um að hér skorti skóga og að vissu leyti er það rétt. Þegar hinsvegar litið er á skóga í víðara samhengi kemur í ljós að Ísland er umlukið þaraskógi, en þörungar gefa okkur allt að 2/3 af súrefni jarðar. Við upphaf verkefnisins litum við á þörunga sem eitthvað slímugt, óspennandi og illa lyktandi. Þremur mánuðum síðar höfum við áttað okkur á mikilvægi þeirra, fegurð, ógnum og tækifærum. Við vitum að í þeim felast mikil verðmæti en hvernig getum við komið í veg fyrir að vanþekking mannsins á umhverfi sínu ógni lífsskilyrðum þeirra? Markmið okkar er að stuðla að virðingu fyrir þörungum líkt og Íslendingar bera virðingu fyrir mosanum. Með því að rýna í líf þörunga, kynnast ólíkum afbrigðum þeirra, meðhöndla og hlúa að þeim er von okkar að með aukinni þekkingu megi sambúð okkar styrkjast. Eða eins og Guðmundur Páll Ólafsson orðar það „Þú verndar aðeins það sem þú elskar, þú elskar aðeins það sem þú þekkir. Þú þekkir aðeins það sem þér er kennt.”
Nemendur:
- Arngrímur Guðmundsson
- Bryndís Magnúsdóttir
- Birna Sísí Jóhannsdóttir
- Elín Dagný Kristinsdóttir
- Emma A. Herrera
- Helgi Jóhannsson
- Jón Sölvi Walderhaug Eiríksson
- Mekkín Guðmundsdóttir
- Marsibil Sól Þ. Blöndal
- Salóme Bregt Hollanders
Sýningin er afrakstur 14 vikna námskeiðs sem er hluti af stærra verkefni sem teygir út anga sína til fleiri skóla í Evrópu og fjallar um þörunga.
Sýningin er opin almenningi þar sem hægt er að skyggnast inn í ferlið. Námskeiðið var leitt af Tinnu Gunnarsdóttur.