Fischersund listasamsteypa kemur fram á DesignTalks 2025
Lilja og Ingibjörg Birgisdætur, listasamsteypunni Fischersund munu koma fram á alþjóðlegu ráðstefnunni DesignTalks og aðrir meðlimir munu taka þátt í að búa til spennandi ferðalag um töfrandi heima Fischersund.
DesignTalks fer fram í Hörpu þann 2. apríl, undir þemanu Uppspretta
Inga, Jónsi, Sigurrós og Lilja ásamt Sindra og Kjartani mynda listasamsteypuna Fiscersund, sem sameinar myndlista- og tónlistargrunn meðlimanna í sterkt skapandi afl á sviði íslenskrar konsept samtímalistar. Sögulega svarta húsið við Fischersund 3, er hjartað í ilmunum þeirra og þar birtist frásagnarlist í hverjum ilmi í fallegu samhengi við tónlist, myndlist og ljóðlist.
“Í nútímasamfélagi, hefur þörfin fyrir tengingu aldrei verið meiri og er áhugavert að skynja hvernig ilmur tengir fólk. Við erum svo vön að horfa og dæma með rökhugsuninni einni en ilmir fara aðra leið, framhjá þeirri hindrun og beint að kjarnanum, litla hjartanu okkar.” - Lilja Birgisdóttir
Algengast er að hugsa sér að uppsprettan marki augnablik í tíma þar sem eitthvað byrjar eða verður til. Uppspretta hugmynda, innblásturs eða lífs jafnvel! En uppsprettan er líka myndlíking fyrir að endurskoða hugmyndir, taka skref til baka, tengjast aftur upprunanum, hreinsa hugann eða endurnýja sig. Að venju, mun stórkostlegur hópur hönnuða, arkitekta og skapandi hugsuða koma fram á DesignTalks og nálgast þemað út frá ólíkum hliðum.
Taktu daginn frá! Forsalan á DesignTalks er í fullum gangi, en uppselt hefur verið á þennan vinsæla viðburð síðustu ár. Ekki missa af þessari veislu sköpunarkraftsins.