Við kynnum til leiks fyrsta fyrirlesara á DesignTalks 2025 - Tryggðu þér miða í forsölu!
Hönnuðurinn Fernando Laposse kemur fram á alþjóðlegu ráðstefnunni DesignTalks sem fer fram þann 2. apríl, undir þemanu Uppspretta
Fernando sérhæfir sig í að umbreyta hversdagslegum, náttúrulegum hráefnum í fágaða hönnunargripi. Hann vinnur mest með plöntur, sem vaxa í upprunalandi hans Mexíkó og hafa gleymst eða glatað notagildi sínu með tímanum eins og sisal og maíslauf. Í hönnunarferlinu er efniviðurinn ásamt sögulegum og menningarlegum tengslum í aðalhlutverki, með það að markmiði að fanga kjarna staðarins. Fernando er mikilvæg rödd innan alþjóðlegu hönnunarsenunnar og er m.a. tilnefndur til Dezeen verðlaunanna 2024.
“Það er falleg tenging við þemað okkar, upprunann í verkum hans. Ekki bara að hann horfi til vannýttra hráefna úr nærumhverfinu og samstarf við samfélög frumbyggja, heldur líka hvernig hann sækir innblástur í fortíðina og fornar aðferðir til að skapa nýja möguleika, nýtt upphaf. Loðin húsgögn eru ekki það fyrsta sem okkur dettur í hug þegar einhver nefnir agave, maís eða avókadó! Næmni hans og seigla lætur engan ósnortinn.“
- Hlín Helga, listrænn stjórnandi DesignTalks
Algengast er að hugsa sér að uppsprettan marki augnablik í tíma þar sem eitthvað byrjar eða verður til. Uppspretta hugmynda, innblásturs eða lífs jafnvel! En uppsprettan er líka myndlíking fyrir að endurskoða hugmyndir, taka skref til baka, tengjast aftur upprunanum, hreinsa hugann eða endurnýja sig. Að venju, mun stórkostlegur hópur hönnuða, arkitekta og skapandi hugsuða koma fram á DesignTalks og nálgast þemað út frá ólíkum hliðum.
Alþjóðlega ráðstefnan DesignTalks fer fram í Silfurbergi í Hörpu þann 2. apríl 2024.
Forsalan er í fullum gangi, en uppselt hefur verið á þennan vinsæla viðburð síðustu ár. Ekki missa af þessari veislu sköpunarkraftsins!