Fjaðurlétt Hildur kynnt á Stockholm Furniture Fair

Margverðlaunaði arkitektinn og hönnuðurinn Valdimar Harðarson kynnir nýja hönnun sína til sögunnar, stólinn Hildi, þessa dagana á húsgagnasýningunni Stockholm Furniture Fair. Hildur er staflanlegur stóll ætlaður til notkunar í fjölnota rýmum og sameinar kröfur um mikil þægindi, litla þyngd og fallega hönnun á nýstárlegan hátt. 

Í kjölfar velgengni stólsins Magna, sem Valdimar hannaði árið 2010 og hefur m.a. verið í notkun í Hörpu tónlistarhúsi, hefur hann nú með áframhaldandi þróun stólsins náð fram bæði hámarksþægindum, léttleika og styrk. Hildur vegur aðeins 4 kg en sambærilegir bólstraðir stólar eru 6-8 kg að þyngd. Stólinn er því afar hentugur kostur fyrir ýmiss konar rými af öllum stærðum.

Með léttleika og þægindi að leiðarljósi í hönnun sinni segir Valdimar að nýsköpun í efnisvali hafi verið lykillinn að samþættingu þessara einstöku eiginleika Hildar og bendir á að rekja megi „nánast alla heimsklassa hönnun á húsgögnum til nýrra róttækra aðferða í efnisvali og notkun þess. Þar megi til dæmis nefna gufubeygt timbrið í Vínarstólnum, stálrörið í Bauhaus-húsgögnunum og límtréð hjá Aalto, Eames og Saarinen …“

Grind stólsins Hildar er úr hertu, styrktu stálröri og efnisnotkun í sæti og baki er nýstárleg, en notast er við efni sem sett er á bak og sæti stólsins með rennilásum. Síðan er áklæðið hitað upp í 120° í um 20 sekúndur og við það strekkist það og mótast. Stóllinn er kjörinn kostur fyrir ýmiss konar rými s.s. ráðstefnusali, hótel, skóla og vinnustaði, en hann er í senn þægilegur, handhægur og endingargóður. Valdimar Harðarson er fæddur í Reykjavík árið 1951 og útskrifaðist frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð árið 1980. Hann er einn stofnenda ASK arkitekta á Íslandi. Valdimar hlaut tilnefningu til Mies van der Rohe hönnunarverðlaunanna árið 2007 fyrir hönnun sína á sumarhúsi í Götu í Hrunamannahreppi.

Auk þess að hafa komið að hönnun fjölda mannvirkja og unnið að skipulagsmálum hefur Valdimar hannað húsgögn bæði fyrir íslenskan og aðþjóðlegan markað. Þar á meðal má nefna stólinn Sóley sem hann hannaði árið 1983 og er enn framleiddur af Kusch & Co í Þýskalandi. Sóley hefur m.a. unnið til verðlaunanna Möbel des Jahres (stóll ársins) og Stuttgart Design Center prize í Þýskalandi, Roscoe verðlaunanna í Bandaríkjunum, hönnunarverðlauna í Japan og Deutscher Designer Club Medaille.

Valdimar Harðarson með dætrum sínum Sóley og Hrafnhildi sem reka fjölskyldufyrirtækið með föður sínum. Þess má geta að Sóley situr á hinum margverðlaunaða stól Sóley sem er nefndur í höfuðið á henni og Hrafnhildur á Hildi sem er í höfuðið á henni.
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Innanhússarkitektúr
  • Húsgögn