Fjallaskáli framtíðarinnar hlýtur hæsta styrk í síðari úthlutun Hönnunarsjóðs 2022
Hönnunarsjóður úthlutaði þann 20. október 20 styrkjum til ólíkra verkefna á sviði hönnunar og arkitektúrs og 10 ferðastyrki. Að þessu sinni var 17.5 milljón úthlutað en alls bárust 97 umsóknir um 218 milljónir í almenna styrki.
Umhverfis - og náttúruvænar byggingar, íslenskt hráefni, framleiðsla, arfleifð, og alþjóðleg sókn er meðal þess sem einkennir þau verkefni sem hlutu styrki í þessari síðari úthlutun ársins.
Fjallaskáli framtíðarinnar hlaut hæst styrkinn að þessu sinni, 2 milljónir í verkefnastyrk, um er að ræða verkefni sem Krads arkitektar eru að vinna að í samstarfi við Studio BerliNord og Teresa Himmer studio að þróun og útfærslu á fyrstu frumgerð að nýjum fjallaskála, aðlöguðum göngufólki við íslenskar aðstæður.
Næst hæstu styrkina hlutu Kormákur og Skjöldur, markaðs- og kynningarstyrk upp á 1.500.000 kr. sem nýtist til að koma vörulínu þeirra „Íslenskt tweed“ á erlendan markað og verkefnið Biobuilding, tilraunarannsókn og hönnunarverkefni sem er fyrsta skrefið í átt að framtíð þar sem hægt er að reisa byggingu úr íslensku hráefni, eftir Önnur Karlsdóttur, arkitekt sem hlaut 1.500.000 kr. í verkefnastyrk.
Það er gefandi og skemmtilegt að vera í stjórn Hönnunarsjóðs og í raun forréttindi að fá innsýn inn í alla þá möguleika sem felast í góðri hönnun. Allt um kring í samfélaginu sjáum við dæmi um vel heppnaða hönnun og hún er mun fjölbreyttari en margir gera sér grein fyrir. Þeir hönnuðir og arkitektar sem Hönnunarsjóður styrkir haustið 2022 eru að þróa framtíðarlausnir á fjölmörgum sviðum þar sem hönnun er höfð að leiðarljósi.
Úthlutun Hönnunarsjóðs fór fram í Grósku þar sem ráðherra menningar og viðskipta, Lilja D. Alfreðsdóttir úthlutaði styrkjum ásamt formanni stjórnar Hönnunarsjóðs, Guðrúnu Ingu Ingólfsdóttur. Ljósmyndir: Víðir Björnsson.
Tíu ferðastyrkjum var úthlutað en alls var sótt um 32 styrki. Hver ferðastyrkur er að upphæð 100.000 kr. Hér fyrir neðan má sjá lista yfir þá sem hlutu ferðastyrki.
Ferðastyrkir að upphæð 100.000 kr.
- Gigja Bjornsson, Vatnaveröld, París
- Fatahönnunarfélag Íslands, EFA summit, Spánn
- Arnar Grétarsson, Getur bygging verið vistkerfi?, Denver
- Halldóra Sif Guðlaugsdóttir, Sif Benedicta, Líbanon
- Erla Sólveig Óskarsdóttir, Bessi á Orgatec, Köln
- Linda Ólafsdóttir, bókakynning I DARE! I CAN! I WILL!, San Francisco
- Arnar Fells Gunnarsson, Dómarastörf ADC*E, Barcelona
- Dóra Haraldsdóttir, Dómarastörf ADC*E, Barcelona
- Theodóra Alfreðsdóttir, Stockholm Furniture Fair, Svíþjóð
- Birta Rós Brynjólfsdóttir, Stockholm Furniture Fair, Svíþjóð
Markaðs- og kynningarstyrkir
Arkitýpa, Ástríður Birna Árnadóttir og Karitas Möller hlýtur 500.000 kr.
Vörumerki Arkitýpu, form- og hugmyndafræði samtvinnar nýstárlega hönnun og endurnýtingu. Hönnunin hefur hlotið eftirtekt og viðurkenningu en næsta skref er að koma verkunum í sölu á vandaðri heimasíðu, þar sem hönnun og hugsjón verða gerð skil og verk Arkitýpu boðin til sölu eftir pöntun.
Ranra, Arnar Már Jónsson hlýtur 750.000 kr.
Ranra sýning á tískuvikunni í París fyrir vetur 2023 hjá RANRA. Tískusýning með módelum þar sem fatnaðurinn og umhverfisvæn hönnun er í forgrunni. RANRA hélt nýverið sýningu á tískuvikunni í Kaupmannahöfn og vann þar verðlaunin fyrir umhverfisvæna tísku.
Everyday, Plastplan hlýtur 1.000.000 kr.
Efling á kynningu og markaðsmálum með það að markmiði að opna á tækifæri á sölu innan- og utanlands á vörulínunni Everyday sem var hönnuð á tímabilinu 2021-2022 og sýnd í fyrsta skipti á HönnunarMars 2022. Vörurnar, 15 talsins, eru framleiddar úr 100% endurunnu plasti á vinnustofu Plastplan.
Íslenskt tweed, Kormákur og Skjöldur hlýtur 1.500.000 kr.
Fyrirtækið Kormákur og Skjöldur hefur það að markmiði að komast inn á fatahönnunarmarkaði Skandínavíu og Þýskalands með fatalínu sína og smávörur úr íslenska Tweed-inu og stuðningsvörur þess.
Þróunar- og rannsóknarstyrkir
Staðbundið Ull og strá, Hanna Dís Whitehead hlýtur 750.000 kr.
Rannsókn á möguleikum þess að fullvinna tvo vannýtta staðbundna efniviði úr nærumhverfi í nýtilegt hráefni til húsgagna- og vöruþróunar.
By Petra Bender Sundföt, Petra Bender hlýtur 750.000.kr.
Framleiðslu á sundfatnaði, hannaðir undir áhrifum frá brimbretta og sjósunds menningu. Hönnuninni eru tilbúin og séreinkenni hennar endurskin í mynstri sem sést vel í sjósundi. Framleiðslan er umhverfisvæn og leggur hönnunin áherslu á útlit, þægindi.
Verkefnastyrkir
Studio Bua á Time Space existence, Sigrún Sumarliðadóttir hlýtur 500.000 kr.
Studio Bua hefur nýverið hlotnast sá heiður að vera boðið að taka þátt í sýningu European Cultural Centre í tengslum við Feneyjartvíæringinn í arkitektúr, 2023. Með þátttökunni viljum við varpa ljósi á sjálfbærni í íslenskum arkitektúr sem endurspeglast i verkum okkar.
Netizens Kuml, Sigríður Birna Matthíasdóttir og Sólveig Dóra Hansdóttir, hlýtur 500.000 kr.
KUML er fyrsta opinbera sería Netizens sem er þverfaglegt hönnunar stúdíó stofnað af Sigríði Birnu Matthíasdóttir og Sólveigu Dóru Hansdóttir. Netizens leggur áherslu á að skoða tísku frá nýjum sjónarhornum og skapa lausnir fyrir sjálfbærri framtíð tískunnar, m.a. í formi stafrænnar tísku.
Hvað skal segja?, Hanna Jónsdóttir hlýtur 500.000 kr.
Verkefnið "hvað skal segja" er vettvangur hönnuðar til þess að kafa ofan í texta sem að hún hefur verið að vinna með bæði í prjóni og í myndlistarverkum og finna orðunum fleiri staði ef svo má segja.
Kaupaekkertbúðin, Rán Flygenring og Elín Elísabet Einarsdóttir, hlýtur 500.000 kr.
Kaupaekkertbúðin er eina búðin í heiminum sem selur allt – í formi teikninga. Rán Flygenring og Elín Elísabet Einarsdóttir bjóðast til að teikna allar jólagjafir ársins 2022 í stað þess að þær séu keyptar. Kaupaekkertbúðin er vistvænt og listrænt svar við óseðjandi jólagjafakaupþörf landans.
Lavaforming-Hraunmyndanir, Studio Arnhildur Pálmadóttir hlýtur 500.000 kr.
Lavaforming er tilgátu, rannsóknar- og hönnunarverkefni sem sett er fram á formi sýningar í raun- og sýndarheimi. Verkefnið varpar nýju ljósi á mannvirkjagerð á tímum loftslagsbreytinga og hvernig hægt er að nýta náttúruleg fyrirbæri sem byggingarefni og mynda grunn fyrir frekari þróun og nýsköpun.
Slökkvistöðin: Sýningarrými um arkitektúr í Gufunesi, Óskar Örn Arnórsson hlýtur 500.000 kr.
Slökkvistöðin er sjálfstætt, non-profit sýningarrými fyrir arkitektúr og rýmistengda umfjöllun sem umsækjendur hafa standsett í slökkvistöð fyrrum Áburðarverksmiðju ríkisins í Gufunesi. Sótt er um fjármagn til fullgera sýningarrýmið og halda fyrstu sýningu um Marshallaðstoðina á Íslandi þar.
Hönnun á Íslandi - Ágrip af sögu, Elísabet V. Ingvarsdóttir og Arndís S. Árnadóttir, hlýtur 500.000 kr.
Framhald vinnu við undirbúning og ritun yfirlits um sögu hönnunar á Íslandi, ætluð almenningi, skólum og fagfólki. Höfundar eru sérfræðingar í hönnunarfræðum með langa reynslu af rannsóknum, kennslu og miðlun á sviðinu.Verkefnið nýtur stuðning frá Hönnunarsafni Íslands og Listaháskóla Íslands.
Knowning the Ropes x Hallwyska, Smjör SLF hlýtur 500.000 kr.
Knowing the Ropes X Hallwylska er framhald á þverfaglegu hönnunarverkefni sem fjallar um táknræna vídd reipisins. Fyrsti hluti verkefnisins var sýndur í Hafnarhúsinu á Hönnunarmars 2021 samhliða bókarútgáfu. Næsti kafli þess er sýning í Hallwylska Museet í febrúar 2023 á Stockholm Furniture Fair.
Jónófón HIFI, Jón Helgi Hólmgeirsson hlýtur 750.000 kr.
Verkefnið Jónófón Hifi stefnir að því að nýta eiginleika íslenskra efna til þess að hanna plötuspilara og hátalara, tæknilega vöru sem mun gefa eiginleikum efnanna skörp skil og vonandi vekja áhuga á nýtingu slíkra efna við hönnun og framleiðslu neytendavara fyrir íslenskan markað.
Melta: Þjónustuhönnun í hringrásarsamfélaginu, Kristjana Björk Brynjarsdóttir og Julia Miriam Brenner, hlýtur 1.000.000 kr.
Melta er heildstæð hringrásarlausn fyrir lífrænan heimilisúrgang sveitarfélaga á landsbyggðinni. Melta er hannað með aðferðarfræði þjónustuhönnunar og spannar allt ferlið: frá flokkunarupplifun íbúa og þar til lífkerfið í moldinni nýtir næringuna.
Frábær smábær, Ólafía Zoëga hlýtur 1.000.000 kr.
Frábær Smábær er verkefni sem snýr að því að efla tegningu lítils smábæjar við sjóinn, skúrana og bryggjurnar sínar, sem áður voru stærstu samkomustaðir bæjarins en eru að miklu leyti horfnir á braut.Heimamenn fá nýja aðstöðu til sjósunds og gufubaðs sem verður svo einstök að ferðamenn flykkjast að!
Endurútgáfa klassískrar hönnunar, Fólk Reykjavík hlýtur 1.000.000 kr.
Í hönnunarsögu Íslands leynast ýmsar gersemar. Meðal þeirra er hönnun Gunnars Magnússonar húsgagnahönnuðar sem hlaut Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands árið 2021. Verkefnið gengur út á að smíða og útbúa frumgerðir af hönnunarverkum Gunnars, úr umhverfis- og hringrásarvænum hráefnum.
Biobuilding, lúdika arkitektar hlýtur 1.500.000 kr.
Tilraunarannsókn og hönnunarverkefni sem kynnir hina aldagömlu aðferð að nota iðnaðarhamp sem nútíma byggingarefni sem ræktað er hér á landi og aðlaga það að staðbundnu loftslagi og aðstæðum. Fyrsta skrefið í átt að framtíð þar sem hægt er að reisa byggingu úr íslensku hráefni.
Fjallaskáli framtíðarinnar, Krads hlýtur 2.000.000 kr.
Áframhaldandi þróun og útfærsla á fyrstu frumgerð að nýjum fjallaskála, aðlöguðum göngufólki við íslenskar aðstæður. Skálinn á að samflétta upplifun ferðamannsins og umgengni við viðkvæma íslenska náttúru. Áhersla er lögð á vistvæna og sjálfbæra hönnun, samræmt notagildi en staðbundið ytra útlit.