Samkeppni um nýja grunnsýningu um hafið - forval fyrir hönnunarsamkeppni um sýningu Náttúruminjasafns Íslands
Náttúruminjasafn Íslands í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og Ríkiskaup efnir til hönnunarsamkeppni um nýja grunnsýningu fyrir safnið í Náttúruhúsi í Nesi, nýju húsnæði safnsins við Safntröð á Seltjarnarnesi. Samkeppnin er hönnunar- og framkvæmdasamkeppni með forvali.
Ríkiskaup, fyrir hönd Náttúruminjasafns Íslands, óska eftir þátttakendum í forvali vegna hönnunarsamkeppninnar. Forvalsnefnd fer yfir umsóknir sem berast og velur þrjú teymi til þátttöku í samkeppni um hönnun nýrrar grunnsýningar.
Óskað er eftir fjölbreyttum umsóknum frá teymum hönnuða til að koma með áhugaverðar hugmyndir um vandaða og fræðandi sýningu sem byggir á sterkri upplifun gestsins. Öllum er frjáls þátttaka í forvalinu að uppfylltum neðangreindum kröfum. Þrjú teymi sem fá hæstu einkunn forvalsdómnefndar, verður boðið að taka þátt í samkeppninni. Hverju teymi verður greidd 1.500.000 kr. án vsk. fyrir sína tillögu að samkeppni lokinni.
Markmið
Markmið samkeppninnar er að kalla fram hugmyndir að sýningu um hafið, þar sem gestir öðlast nýja þekkingu og eykur virðingu og væntumþykju fyrir náttúrunni. Framsetning sýningar skal vera frumleg og fjölbreytt þar sem mismunandi skynfæri eru örvuð, með hæfilegri blöndu af gripum í eigu safnsins og tækni sem byggir á margmiðlun og gagnvirkni. Hluti sýningarinnar skal sýna lifandi dýr/lífverur úr fjöru og hafi.
Gestir eiga að fræðast um hafið og lífríki þess í gegnum fjölbreytta upplifun og þátttöku með snertingu og í gegnum leik. Sýningin skal vera byggð á vísindalegum grunni og fagmennsku. Safnið á að vera lifandi vettvangur almennings, skólafólks og ferðamanna sem sækir það heim aftur og aftur til að njóta, fræðast og upplifa undur og síbreytileika náttúrunnar.
Stutt lýsing á sýn Náttúruminjasafns Íslands á efnistökum og hugmyndafræðilegri útfærslu sýningarinnar er hluti forvalsgagna. Í samkeppnisgögnum fylgir nánari lýsing á efnistökum sýningar og útdráttur úr forvinnu faghóps sérfræðinga fyrir sýningu Náttúruminjasafnsins.
Forval
Kröfur til teyma í forvali:
* Sýna skal fram á að teymið búi yfir eftirfarandi þekkingu :
Sýningarhönnun, grafísk hönnun, margmiðlunarhönnun, tæknihönnun og lýsingarhönnun.
* Samanlögð starfsreynsla aðila innan teymisins skal vera að lágmarki 15 ár.
Tímalína forvals
Nýtt húsnæði Náttúruminjasafns Íslands, með nýrri grunnsýningu safnsins, verður opnuð um mitt ár 2024. Frekari útfærsla á tímalínu verkefnisins verður unnin í samráði við vinningshafa samkeppninnar.
Lykildagsetningar í forvalsferli
- Forvalið er auglýst – 10. október kl. 09:00
- Skilafrestur þátttökutilkynninga í forvali – 8. nóvember kl. 12:00
- Tilkynning um val þátttakenda í hönnunarsamkeppni (áætlað) – 23. nóvember
Fylgigögn
Fylgigögn forvals eru eftirfarandi:
– Teikningar af innanrými hússins á tveimur hæðum.
– Ljósmyndir af húsnæðinu.
– Stutt lýsing á sýn Náttúruminjasafns Íslands á efnistökum og hugmyndafræðilegri útfærslu sýningarinnar, 2 blaðsíður.
Valnefndir
Forvalsnefnd fer yfir umsóknir og velur umsækjendur til þátttöku í samkeppninni. Fimm manna forvalsnefnd skipa:
- Helga Aradóttir, safnkennari og hönnuður við Náttúruminjasafn Íslands // Náttúruminjasafn Íslands
- Bergsveinn Þórsson, dr. í safnafræðum // Náttúruminjasafn Íslands
- Garðar Snæbjörnsson, arkitekt // Miðstöð hönnunar og arkitektúrs
- Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir, hönnuður hjá Reykjavíkurborg // Miðstöð hönnunar og arkitektúrs
- Lóa Auðunsdóttir, grafískur hönnuður við LHÍ // Miðstöð hönnunar og arkitektúrs
Fimm manna dómnefnd í samkeppninni skipa:
- Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafn Íslands // Náttúruminjasafn Íslands
- Alma Dís Kristinsdóttir, safnstjóri Listasafns Einars Jónssonar // Náttúruminjasafn Íslands
- Ásdís Helga Ágústsdóttir, arkitekt hjá Yrki // Miðstöð hönnunar og arkitektúrs
- Einar Geir Ingvarsson, grafískur hönnuður // Miðstöð hönnunar og arkitektúrs
- Tinna Gunnarsdóttir, vöruhönnuður // Miðstöð hönnunar og arkitektúrs
Verkefnisstjóri og ritari forvals- og samkeppnisnefnda: Álfrún Pálsdóttir, kynningarstjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.
Umsjónar- og trúnaðarmaður forvalsins og samkeppninnar: A. Katrín Arnórsdóttir, sérfræðingur í framkvæmd útboða hjá Ríkiskaupum.