Íslensk hönnun lýsir upp borgina í október
Verðlaunaátakið „Þetta er íslensk hönnun“ lýsir nú upp borgina í annað sinn, með íslenskri hönnunarvöru á ljósaskiltum um allt höfuðborgarsvæðið í heila viku.
„Markmiðið með átakinu er að vekja meðvitund og auka virðingu fyrir íslenskri hönnun,“ segir Eyjólfur Pálsson, stofnandi Epal, en hann stendur að baki átakinu sem vakti mikla athygli í fyrra og vann til gullverðlauna í FÍT keppninni.
„Átakið sprettur af einlægri ástríðu minni fyrir hönnun en eftir góðar viðtökur í fyrra og fjölda áskorana um að endurtaka leikinn ákvað ég að kalla á ný eftir stuðningi og samvinnu þeirra sem hanna, framleiða, selja eða einfaldlega elska íslenska hönnun og endurtaka leikinn! Við fengum verðlaunateymið hjá Brandenburg aftur til liðs við okkur og rétt eins og í fyrra munu auglýsingarnar birtast á mínútu fresti í heila viku, á alls þrjátíu stórum skjám og 300 skjám í strætisvagnaskýlum.“
Ólíkar hönnunarvörur – allt í kring um okkur
Miðstöð hönnunar og arkitektúrs var Eyjólfi innan handar að útbúa lista yfir vörur sem endurspegla þá miklu breidd sem einkennir íslenska hönnun.
„Við viljum vekja athygli á fjölbreytileika hönnunar og í ár voru 60 hönnunarvörur frá jafnmörgum hönnuðum / hönnunarteymum valdar til að til að prýða borgarumhverfið. Hönnunarvara er ekki bara fallegt húsgagn eða skrautmunur, hönnunarvörur eru allt í kringum okkur, frá tölvuleikjum til stoðtækja og keramík til klæða,“ segir Eyjólfur en forsendur fyrir þátttöku eru að varan sé nú þegar í framleiðslu og sölu.
Eyjólfur bendir á að sýnileiki skipti máli og ekki bara á ljósaskiltum og að frumkvæði og kaup opinberra aðila á hönnuðum vörum geti skipt miklu máli fyrir greinina, eins og sjá megi í Finnlandi og Danmörku þar sem skýr hönnunar – og innkaupastefna hefur leitt leiðina.
„Danir leggja sem dæmi ávallt áherslu á að þeirra eigin framleiðsla og hönnun sé í fyrirrúmi í stofnunum, byggingum, opinberum verkefnum og öllu kynningarefni, eins og í bíómyndum. Þetta gera dönsk yfirvöld á hreinum viðskiptalegum forsendum en hönnun er einn helsti drifkrafturinn að baki aukinni verðmætasköpun, meiri lífsgæðum, sjálfbærni og betra þjóðfélagi. Opinberar byggingar eru stolt þjóðar og eiga að endurspegla þann faglega metnað sem við búum yfir, bæði hvað varðar listmuni og arkitektúr en ekki síður hönnunarvörur,“ segir Eyjólfur og segir Ísland geta lært mikið af nágrannaþjóðum hvað það varðar.