Fjölbreyttir hönnunartengdir viðburðir um helgina
Önnur helgi í aðventu er framundan með fjölda viðburða fyrir öll. Hér er yfirlit yfir hönnunartengda viðburðadagskrá helgarinnar. Góða skemmtun.
Útópía
Nemendur á öðru ári í Grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands hafa eytt síðustu fimm vikum í að hugleiða um útópíu. Sýningaropnun verður á föstudaginn, 6. desember kl. 18:00 - 20:00
Þau fengu þá áskorun að nota verkfæri grafískrar hönnunar—Risóprentun, silkiþrykk, myndbandsgerð, hreyfimyndir og skapandi forritun—til að miðla og tala fyrir betri heimi. Viðfangsefni sem þau hafa rannsakað ná allt frá staðbundnum málefnum til alþjóðlegra og fela í sér kynbundið ofbeldi, aðgengi að hreinu drykkjarvatni, aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu, verðbólgu og margt fleira.
Opnunartími:
Föstud. 6. des. kl.1 8 - 20:00 (Opnun)
Laugard. 7. des. kl. 11 - 20:00
Sunnud. 8. Des. kl. 12 - 15:00
Staðsetning:
Á milli, Ingólfsstræti 6, 101 Reykjavík
Verkstæði Hugmyndasmiða
Fjölskyldusmiðja þar sem við hönnum og föndrum jólakort með ljósum. Ninna hugmyndasmiður tekur á móti skapandi krökkum á aldrinum 7-12 ára og foreldrum þeirra á Verkstæði Hugmyndasmiða í Rafstöðinni í Elliðaárstöð. Þátttakendur fá tækifæri til að virkja sköpunarkraftinn og efla samvinnu fjölskyldunnar. Unnið verður með endurnýttan efnivið sem við björgum til að skapa eitthvað alveg nýtt og spennandi í gegnum smíðar, leiki, föndur, tilraunir og prófanir. Þema smiðjunnar eru jólakort og ljós.
Jóladagskráin á verkstæðinu:
7. desember kl 10-12 - Lifandi jólakveðja
14. desember kl 10-12 - Jólalegt könglaskraut
21. desember kl 10-12 - Jólaleg stimplagleði
Jólamarkaður Reykjavík Clay
Komdu í heimsókn á einstakan jólamarkað hjá Reykjavík Clay, þar sem 15 keramikerar sýna og selja verkin sín - allt frá fallegum nytjahlutum til einstakra listaverka. Fullkomið tækifæri til að versla undir jólatréð eða gleðja sjálfan þig með smá pakka.
Heitir drykkir og smákökur verða á boðstólnum í frábærri fjölskyldu stemningu!
Opnunartími:
Laugard. 7. des. kl. 11:00 - 17:00
Sunnud. 8. des. kl. 11:00 - 17:00
Staðsetning:
Vagnhöfði 14, 110 Reykjavík
Endurteikningar - Narfi Þorsteinsson
Narfi Þorsteinsson opnar einkasýninguna Endurteikningar á Hverfisgötu 35, laugardaginn 7. desember kl. 16:00.
Sýningin saman stendur af 32 nýjum teikningum sem gerir eru á 200 gsm pappír með kúlupennum og borvél. Narfi hefur unnið með borvélateikningar síðan 2019 en þær voru fyrst sýndar á einkasýningu hans Qring eftir Qring í Gallery Port sama ár. Síðan þá hefur Narfi unnið í þessum miðli, þróað teikningarnar og gert ýmis verk. Endurteikningar er önnur heildræn einkasýning Narfa á borvélateikningunum en á sýningunni verða ný flæði og form.
Hvenær: Laugardaginn 7. des. kl. 16.00
Staðsetning: Hverfisgata 35
Hvað ef
Sýningin er afrakstur annars árs í vöruhönnun úr áfanga í getgátu hönnun (e.Speculative Design) undir leiðsögn Elínar Margot. Nemendur sýna túlkun þeirra eftir að skyggnast inn í framtíð út frá vandamálum nútímans með spurninguna „hvað ef?“ sem leiðarljós.
Hvenær: Laugardaginn, 7. des. kl. 14.00 - 17:00
Staðsetning: Hönnunarsafn Íslands
Jólagestir Gallery Port
Laugardaginn 7. desember opnar jóla-samsýningin Jólagestir Gallery Port 2024. Þetta eru níundu jólin sem Gallery Port stendur fyrir stórsýningu af þessu tagi.
Opnunin stendur yfir milli kl. 15-18 í Gallery Port, Hallgerðargötu 19-23, Laugarnesi. Allir velkomnir. Hátíðarskap og léttar veitingar.
Að vanda tekur fjöldi listafólks þátt, öll sömul vinir og vandamenn Portsins, og í þeim hóp má finna bæði fulltrúa grasrótarinnar í íslenskri myndlist og svo margreyndari og eldri í hettunni.
Listi þátttakenda og verkin sem verða á boðstólum verða kynnt betur þegar nær dregur.
Opið verður fram að jólum og munu ný verk bætast við jafnt og þétt eftir því sem á líður á aðventuna. Almennur opnunartími fyrst um sinn verður milli kl. 12-17 og verður lengri opnunartími kynntur þegar nær líður jólum.
Hvenær: Laugardaginn 7. des. kl. 15:00 - 18:00
Staðsetning: Gallery Port, Hallgerðargötu 19-23, Laugarnesi.
Peysusmiðju Ýrúrarí í Vetrar Vondalandi!
Er peysan þín ekki nógu jólaleg fyrir jólin?
Kipptu því í lag á peysusmiðju Ýrúrarí í Vetrar Vondalandi! Komdu með peysu sem þarfnast viðgerða eða skreytinga og fáðu aðstoð og ráð til að umbreyta henni í félaga sem léttir undir skammdeginu. Auk smiðjunnar verða til sölu ýmsar nýjar vörur af vinnustofu Ýrúrarí.
Smiðjan og ull fyrir viðgerðir er frí, en sætismagn takmarkað.
Hvenær: Sunnudagur 8. des. kl. 15:00 - 18:00
Staðsetning: Vetrar Vondaland, Lækjargata 4