Flétta verðlaunaðar á Rising Talents Awards á Maison&Objet
Hrefna Sigurðardóttir og Birta Rós Brynjólfsdóttir hjá Fléttu hönnunarstofu eru einar af sjö verðlaunahöfum Rising Talents Awards á Maison&Objet í París. Fókus verðlaunanna í ár eru á unga hönnuði á Norðurlöndunum sem eiga það sameiginlegt að vera undir 35 ára og hafa verið starfandi í 5 ár.
Verðlaunahafar koma frá Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Finnlandi og Íslandi og á Maison&Objet verða þau öll með sýningu á sínum verkum.
„Það er öðruvísi nálgun á bæði tíma og náttúrulegum hráefnum í Norður Evrópu. Unga kynslóðin er að þróa nýtt tungumál sem er nær handverki og listhönnun,“ segir Dereen O’Sullivan, sem stýrir Rising Talents Awards fyrir Maison&Objet.
Rising Talents Awards 2024 - verðlaunahafar:
- Christian + Jade
- Malin Ida Ericksson
- Ali Sha Gallefoss
- Lab La Bla
- Frederik Gustav
- Antrei Hartikeinen
- Flétta
Lesa meira um verðlaunahafa hér.
Dómnefnd er skipuð fagaðilum; fransk - sænska hönnunardúóið Färg & Blanche, danski hönnuðurinn Gesa Hansen, finnski arkitektinn og hönnuðurinn Joanna Laajisto og danski arkitektinn og hönnuðurinn David Thulstrup ásamt Höllu Helgadóttir, framkvæmdastjóri Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og Cecile Molvær Jørgensen, ráðgjafa hjá DOGA í Noregi.
Úr tilkynningu frá Maison&Objet
Hagkerfi afgangshráefna
Birta Rós Brynjólfsdóttir og Hrefna Sigurðardóttir, 33 og 34 ára, búa og starfa í Reykjavík. Þær stunduðu báðar nám í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands og stofnuðu hönnunarstofuna Fléttu árið 2018. Í náminu tóku þær að sér það metnaðarfulla verkefni að safna úrgangi frá hundrað fyrirtækjum í Reykjavík með það að markmiði að búa til efnisbanka sem aðrir hönnuðir gætu nýtt sér.
„Við söfnuðum saman ull, textílefnum, tré, gleri, miklum úrgangi frá sjávarútvegi, netum en svo að vildi það enginn. Þannig við stofnuðum stúdíóið til að nýta það sjálfar til að sýna fram á möguleika þess.“
Hvort sem um er að ræða einstaklinga eða fyrirtæki vilja þær mennta samfélagið endurvinnslu, endurnýtingu og verðmætasköpun.
„Við vinnum með fyrirtækjum í að kenna þeim að framleiða hluti sem hægt er að geyma lengi og gera við. Þetta ferli útskýrum við einnig fyrir neytendum á einfaldan, skiljanlegan og ekki síst gleðilegan hátt; að hægt sé að skapa hluti sem veita hamingju úr afgangshráefnum.“ Studio Flétta hönnuðu m.a púða úr gömlum loftpúðum.
„Hönnunarsenan er ung á Íslandi. Við erum því mjög frjáls. Við gerum tilraunir. Forfeður okkar gerðu við skyrtur, gerðu nýtt úr gömlu, þau urðu að vera skapandi. Við gerum það sama en með hráefni frá okkar tíma.“
Maison&Objet fer fram dagana 5. - 9. september næstkomandi og fagnar 30 ára afmæli í ár. Hönnunarviðburðurinn, sem fer fram samhliða Paris Design Week, er meðal þeirra stærstu á sviði vöruhönnunar í Evrópu þar sem hátt í 6000 vörumerki og hönnuðir taka þátt, 300.000 kaupendur koma og yfir 1500 blaðamenn frá öllum heimshornum sækja hátíðina heim.